Verðlaunaðir fyrir rannsóknir á gervigreind

Háskólinn í Reykjavík.
Háskólinn í Reykjavík. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Þremur fræðimönnum frá Háskólanum í Reykjavík voru veitt Kurzweil verðlaunin árið 2012 fyrir rannsóknir sínar á sviði almennrar gervigreindar (artificial general intelligence). Þeir Helgi Páll Helgason, Kristinn R. Þórisson og Eric Nivel hlutu verðlaunin nýverið á árlegri ráðstefnu Oxford háskóla um gervigreind. Kurzweil verðlaunin eru veitt árlega rannsóknum sem þykja skara fram úr á sviði almennrar gervigreindar.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

 Rannsóknir þremenningana lýsa hönnun á athyglisstýringu fyrir almenna gervigreind. Allir höfundarnir starfa við tölvunarfræðideild HR; Helgi Páll Helgason er doktorsnemi, Eric Nivel sérfræðingur og Kristinn R. Þórisson dósent, sem einnig er leiðbeinandi Helga Páls, og meðstofnandi CADIA – Gervigreindarseturs HR – þar sem rannsóknirnar fóru fram. Rannsóknirnar eru hluti af þriggja ára verkefninu HUMANOBS sem Evrópusambandið veitti tveggja milljóna Evra styrk til í janúar 2009, en verkefninu lauk í sumar.

Um almenna gervigreind

Upphaflegt markmið gervigreindar var sköpun „hugsandi véla” – tölvukerfa með mannlega greind. Vegna þess hve verkefnið hefur reynst vísindunum erfitt hefur meirihluti fræðimanna og rannsakenda sem fást við gervigreind einbeitt sér að svokallaðri „takmarkaðri" gervigreind.

Greind slíkra kerfa er bundin við fyrirfram ákveðið svið, og getur einungis framkvæmt sérhæfð verkefni sem ákveðin eru af hönnuðunum. Á undanförnum árum hafa sífellt fleiri vísindamenn þó komið auga á nauðsyn og hagkvæmni þess að snúa aftur til upprunalegs markmiðs fræðigreinarinnar, það er, smíð kerfa sem búa yfir almennri og víðtækri greind líkt og mannskepnan.

Athyglisgáfan forsenda greindar

Athafnir daglegs lífs hafa tímamörk og fara fram í flóknu, breytilegu umhverfi sem inniheldur mikið af upplýsingum – meira en nokkur vitsmunavera getur unnið úr í rauntíma. Einstaklingur eða manngerð vitvera sem á að starfa og læra í raunverulegum aðstæðum þarf að ákveða á skynsamlegan hátt hvert hún beinir athyglinni – í tilviki gervigreindar er um að ræða stjórnun á skynjurum og reikniafli. Hingað til hefur ekki verið gert ráð fyrir þessum þáttum við hönnun og smíð kerfa á sviði gervigreindar. Grein rannsóknarhópsins færir rökin fyrir af hverju athyglisstýring er ekki aukaatriði heldur nauðsynleg forsenda þess að smíða kerfi með almenna gervigreind. Rannsóknirnar nýta hugmyndir úr hugfræði og vitvísindum, en tillaga þeirra að hönnun athyglisstýrikerfisins er í grundvallaratriðum ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert