Hvalir og ísjakar mesta ógnin

För breskra og ástralskra ævintýramanna í kjölfar háskalegs leiðangurs Ernest Shackleton um Suðurhöf árið 1916 er hafin. Fylgt verður nákvæmlega þeirri leið sem Shackleton og félagar fóru á litlum árabát í sextán daga um höf og ísbreiður Suðurskautslandsins.

Leiðangursstjóri er Tim Jarvis en hópurinn telur sex manns. Stefnt er að því að fara 1.480 kílómetra leið frá Fíls-eyju (e. Elephant island) undan ströndum Suðurskautsskagans og til Suður-Georgíueyju.

Er leiðangursmenn ýttu úr vör í dag var vindur var óvenju hægur og sjórinn sömuleiðis sléttari en gengur og gerist á þessum árstíma. Allra veðra er þó von á leiðinni. Shackleton og félagar lentu í miklum lífsháska og var ferð þeirra mikil þrekraun og sögð gríðarlegt afrek.

Leiðangur Tim Jarvis er búinn á nákvæmlega sama hátt og Shackleton og félaga. Þeir nota sambærilegan bát, búinn sambærilegum siglingatækjum og hafa sama kost um borð.

Ferðinni lýkur ekki er báturinn nær landi á Suður-Georgíueyju því þá tekur við, líkt og hjá Shackleton, tveggja daga 900 metra löng ganga um mjög svo klettótta eyjuna. Að þeirri göngu lokinni munu þeir koma að hvalstöðinni í Straumnesi. Þegar þangað var loks komið fyrir tæpum hundrað árum gat Shackleton loks látið vita af strandi skips þeirra, Endurance.

„Við erum mjög meðvitaðir um hætturnar, en trúum að báturinn sé lítill en góður og að hópurinn sé góður og vel stemmdur. Við teljum okkur hafa þann kjark sem þarf til að heiðra minningu Shackleton,“ segir Jarvis.

„Ég vona að þessi leiðangur minni okkur jafnframt á hversu ótrúlega fallegt en á sama tíma viðkvæmt, þetta landsvæði er, sagði vísindamaðurinn og pólfarinn Jarvis áður en hann lagði af stað í ferðina.

Hann sagðist vera undirbúinn fyrir stöðuga erfiðleika á leiðinni. Meðal þess sem þarf að varast eru ísjakar og hvalir.

Norðmaðurinn Roald Amundsen var fyrsti maðurinn sem komst á suðurpólinn. Það var árið 1911. Shackleton er ásamt honum talinn einn af hinum miklu heimskautaförum.

Er hann lagði af stað í sína þriðju ferð til svæðisins árið 1914 ætlaði hann að fara þverrt yfir Suðurskautslandið og þar með yfir suðurpólinn.

En skipið varð innlyksa í ísnum árið 1915 og sökk 10 mánuðum síðar. Shackleton og félagar hans héldu lífi á ísjaka þar til í apríl árið 1916 er þeir héldu af stað á þremur litlum bátum til Fíls-eyju. Þaðan hélt svo Shackleton við fimmta mann í ferðina hrikalegu til Suður-Georgíu. Sextán dögum síðar komu  þeir að landi og áttu  þá erfiða ferð um klettótta eyjuna fyrir höndum.

Svo fór að allir skipverjar Endurance komust lífs af.

Shackleton lést úr hjartaáfalli árið 1922 en þá var hann undan Suður-Georgíueyju í sinni fjórðu ferð til Suðurskautsins. Hann ætlaði að sigla umhverfis Suðurskautslandið. Hann er grafinn á eyjunni.

Barnabarn hans, Alexandra kom með þá hugmynd að Jarvis myndi endurtaka þrekraun afa hennar. Hún segist vita að ferðin nú verði erfið og hættuleg. „En ég hef trú á því að leiðangursmennirnir muni hafa orð afa míns í huga: Erfiðleikar eru aðeins til að yfirstíga þá.“

Jarvis verður þó ekki einn á ferð á litla bátnum líkt og Shackleton. Velbúinn björgunarbátur mun fylgja leiðangrinum alla leið til vonar og vara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert