Hundar skilja sjónarhorn mannfólksins

Hundar skilja ýmislegt.
Hundar skilja ýmislegt. mbl.isSigurgeir Sigurðsson

Hundar eru færari um að greina aðstæður út frá sjónarhóli mannfólks en áður er talið, að sögn breskra vísindamanna sem komust að því að hundar séu fjórum sinnum líklegri til að stela mat sem þeim var bannað að éta eftir að ljósin höfðu verið slökkt þannig að eigandinn sæi ekki til þeirra.

Vísindamennirnir segja þetta gefa til kynna að hundar hagi sér með ólíkum hætti þegar þeir vita að sýn eigandans á aðstæður hefur breyst. 84 hundar tóku þátt í rannsókninni, sem birtist í tímaritinu Animal Cognition og markmiðið var að kanna hvort hundar hefðu „sveigjanlegan skilning“ sem sýndi að þeir áttuðu sig á því hvernig eigandi þeirra sæi aðstæður.

Veit að eigandinn er þarna

Þegar ljósin eru slökkt í herbergi þar sem hundur er staddur með eiganda sínum er hundurinn mun líklegri til að óhlýðnast fyrirmælum og næla sér í matarbita sem hann veit að hann má ekki taka, samkvæmt niðurstöðunum.

Vísindamennirnir segja ólíklegt að hundurinn gleymi því einfaldlega að eigandinn sé í herberginu þegar ljósin eru slökkt. Ástæðan virðist frekar vera sú að hundurinn áttar sig á því hvort eigandinn sér til hans eða ekki. 

Fram kemur á vef BBC að tilraunirnar hafi verið gerðar með nógu mörgum tilbrigðum til að útiloka breytur eins og að hundarnir byrji að tengja skyndilegt myrkur við að vera gefinn matur.

Hjálpar við þjálfun vinnuhunda

Haft er eftir dr. Juliane Kaminski, við sálfræðideild Portsmouth-háskóla, að rannsóknin sé ótrúleg því hún sýni að hundar skilji þegar mannfólk sér þá ekki, sem gefi til kynna að þeir geti sett sig í spor manna og séð þeirra sjónarhorn á aðstæður. Þetta geti haft þýðingu við að reyna að greina getu hunda sem vinna náið með mönnum s.s. blindrahunda og leitarhunda.

Fyrri rannsóknir hafa gefið til kynna að þótt fólki finnist það greina ólík svipbrigði í andliti hundsins síns þá sé það yfirleitt ekki raunin heldur spegli mannfólk eigin líðan í hundinum. „Mannfólkið er sífellt að yfirfæra ákveðna eiginleika og tilfinningar á aðrar lífverur. Við vitum að hundurinn okkar er klár og næmur, en það er samt okkar hugsun, ekki þeirra,“ segir Kaminski.

„Þessar niðurstöður benda þó til þess að fólk gæti haft rétt fyrir sér þegar kemur að hundum, en við getum samt ekki verið alveg hárviss um hvort þetta þýði að hundar hafi raunverulega sveigjanlegan skilning á huga annarra. Til þessa hefur verið talið að einungis mannfólk búi yfir þeim eiginleika.“

Hundur gægist út um kattarlúgu.
Hundur gægist út um kattarlúgu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Íslenskur fjárhundur.
Íslenskur fjárhundur. mbl.is/G.Rúnar
Kátir hundar í bæjarferð á Laugavegi.
Kátir hundar í bæjarferð á Laugavegi. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert