Reykingabann dregur úr fyrirburafæðingum

Lítill kátur reyklaus kútur.
Lítill kátur reyklaus kútur. AFP

Ný rannsókn hefur rennt styrkari stoðum undir þá kenningu að bann við reykingum á opinberum stöðum dragi úr fyrirburafæðingum.

Fjallað er um rannsóknina á vef breska ríkisútvarpsins. Þar segir að rannsókn á yfir 600.000 fæðingum hafi sýnt fram á þrjá áfanga þar sem samdráttur varð á því að börn fæddust fyrir 37 viku meðgöngu. Í hvert af þessum þremur skiptum hafði bann við reykingum á opinberum stöðum tekið gildi.

Hasselt-háskóli í Belgíu stendur að rannsókninni en niðurstöðurnar hafa verið birtar í breska vísindaritinu British Medical Journal. Skoskir vísindamenn komust að svipaðri niðurstöðu í rannsókn sem var kynnt í fyrra.

Sérfræðingar geta ekki fullyrt með afgerandi hætti að reykingabannið sé orsök þessarar breytingar vegna þess að fyrirburafæðingum var byrjað að fækka áður en bannið tók gildi.

Þegar hafa verið færðar sönnur á það að reykingar geti leitt til þess að börn séu undir eðlilegri þyngd við fæðingu og að reykingar geti aukið hættuna á fyrirburafæðingu.

Í rannsókninni var hlutfall fyrirburafæðina rannsakað eftir að nýr áfangi reykingabanns tók gildi í Belgíu. 

Árið 2006 tóku lög gildi sem bönnuðu reykingar á opinberum stöðum og flestum vinnustöðum í Belgíu. Ári síða voru reykingar bannaðar á veitingastöðum og árið 2010 var bannað að reykja á öldurhúsum sem seldu einnig mat.

Hlutfall fyrirburafæðinga minnkaði í kjölfar hvers banns. Samdrátturinn varð áberandi mestur eftir að reykingabann á veitingastöðum og öldurhúsum tók gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert