Börn greina raddir í móðurkviði

mbl.is

Franskir vísindamenn telja að börn geti greint raddir allt að þremur mánuðum fyrir fæðingu, segir í frétt á vef BBC. Vísindamennirnir komust að þessari niðurstöðu eftir að hafa rannsakað heilalínurit barna sem fæddust fyrir tímann.

Eftir aðeins 28 vikna meðgöngu virðist sem börn geti greint milli einfaldra hljóða og gert greinarmun á karl- og kvenmannsröddu. Rannsóknin skýtur stoðum undir þá kenningu að börn þroski tungumálakunnáttu sína í móðurkviði við að hlusta á raddir foreldra sinna. Ekki er talið líklegt að þau hljóð sem börnin heyri stuttu eftir fæðingu hafi áhrif á þetta.

Sérfræðingar vita nú þegar að börn heyra í móðurkviði - eyrað og sá hluti heilans sem túlkar hljóð myndast eftir 23 vikna meðgöngu. Enn er þó deilt um hvort börn hafi meðfæddan eiginleika til að vinna úr töluðu máli eða hvort sá hæfileiki þroskist fyrst eftir fæðingu.

Vísindamennirnir sem stóðu að rannsókninni segja að ýmsir þættir í umhverfi barnanna séu óumdeilanlega mikilvægir, en niðurstöðurnar virðast sýna að börn fæðist með hæfileikann til að meðtaka talað mál.

Doktor Fabrice Wallois og samstarfsmenn hans segja að niðurstöður rannsóknarinnar sýni fram á að um leið og mannsheilinn myndar þann hluta heilabarkarins sem sér um heyrn geti hann greint blæbrigði í töluðu máli. Þetta breyti því þó ekki að æfing og reynsla skipti lykilmáli við að læra og ná tökum á ákveðnum atriðum móðurmálsins.

Prófessor Sophie Scott, sérfræðingur í málskilningi við University College í London, sagði niðurstöðurnar styðja og bæta við það sem þegar sé vitað. „Við vitum að börn geta heyrt rödd móður sinnar í móðurkviði og skynja blæbrigði hennar og takt. Þess vegna virðist sem nýfædd börn róist við það eitt að hlusta á rödd móður sinnar aðeins nokkrum mínútum eftir að þau fæðast,“ segir Sophie Scott.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert