Farið varlega í unnu kjötvörurnar

Það borgar sig að borða ekki of mikið af unnum …
Það borgar sig að borða ekki of mikið af unnum kjötvörum sé manni annt um heilsuna

Át á pylsum, skinku, beikoni og öðrum unnum kjötvörum auka líkurnar á að deyja ungur. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem um hálf milljón Evrópubúa tók þátt í. Þar kemur í ljós að át á unnum kjötvörum auki líkur á hjartasjúkdómum, krabbameini og ótímabærum dauðsföllum.

Fjallað er um rannsóknina í læknaritinu BMC, samkvæmt frétt á vef breska ríkisútvarpsins. Segja rannsakendur að salt og efni sem notuð eru við vinnsluna séu hættuleg heilsu manna. 

Í rannsókninni var fylgst með fólki í tíu löndum Evrópu í þrettán ár. Rannsóknin sýnir fram á að þeir sem borða unnar kjötvörur í miklu mæli eru líklegri til að reykja, berjast við offitu og ýmislegt fleira sem er líklegt til þess að skaða heilsuna.

Einn þeirra sem stóð að rannsókninni segir að það sé hins vegar mun mikilvægara að hætta að reykja heldur en að minnka kjötát en hann mæli samt með því að fólk reyni að minnka át á unnum kjötvörum.

Einn af hverjum sautján sem tóku þátt í rannsókninni lést. Þeir sem borðuðu meira en 160 grömm af unnum kjötvörum á dag, sem er svipað magn og tvær pylsur og sneið af beikoni, eru 44% líklegri til að deyja á undan þeim sem slepptu unnu kjötvörunum. Munar allt að 12,7 árum á lífslíkum þeirra.

Alls létust um 10 þúsund úr krabbameini og 5.500 úr hjartasjúkdómum af þátttakendunum. Aðstandendur rannsóknarinnar mæla með því að fólk reyni að draga úr kjötneyslu, einkum á unnum kjötvörum.

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert