Greina krabbamein með öndunarmæli

Einfaldur öndunarmælir getur greint magakrabbamein, samkvæmt niðurstöðu nýrrar rannsóknar sem sagt er frá á vef BBC.

Vísindamenn frá Ísrael og Kína hafa komist að því að öndunarprófið gat greint magakrabbamein rétt í 90% tilvika og gat greint á milli krabbameins í maga og annarra meina í því líffæri. Um 130 einstaklingar tóku þátt í rannsókninni.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í British Journal of Cancer og þar kemur fram að prófið gæti gjörbreytt og hraðað mjög ferli við greiningu á krabbameini.

Á hverju ári greinist magakrabbamein hjá um 7.000 Bretum. Í flestum tilvikum hefur fólk lengi haft krabbameinið áður en það greinist með sjúkdóminn.

Krabbamein í maga er greint með því að taka sýni innan úr magavegg. Nýja prófið greinir efni í andardrætti sem eru einstök fyrir þá sem hafa magakrabbamein.

Aðferðin við prófunina er ekki ný því margir vísindamenn hafa verið að vinna að því að þróa greiningu á krabbameini með þessum hætti. M.a. er unnið að því að þróa aðferð við að greina lungnakrabbamein sem og fleiri krabbamein.

Sjá nánar frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert