Nýja Galaxy S4 stjórnað með augunum

Nýi Galaxy S4 snjallsíminn frá Samsung var afhjúpaður í Radio …
Nýi Galaxy S4 snjallsíminn frá Samsung var afhjúpaður í Radio City Music Hall í New York í gærkvöldi og margir voru spenntir að prófa. AFP

Nýjasti snjallsíminn frá Samsung, Galaxy S4, var kynntur með stórri sýningu í New York í gærkvöldi. Sú nýjung sem vakið hefur hvað mesta athygli er möguleikinn til að stjórna skjánum án þess að snerta hann, þ.e.a.s. með augunum.

Galaxy S4 hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu enda fylgir hann eftir stolti Samsung til þessa, Galaxy S3, sem selst hefur í yfir 40 milljónum eintaka um allan heim. Samsung er helsti keppinautur Apple á snjallsímamarkaðnum.

Stærri og léttari en S3

Nýi síminn var kynntur á sviði í New York með leikþáttum í anda Broadway sýninga. Síminn er stór, með 5 tommu skjá (12,5 cm) en bæði þunnur og léttur, aðeins 7,9 mm og 130 grömm og býr yfir ýmsum möguleikum.

Má þar m.a. nefna tvöfalda myndavél sem gerir notandanum kleift að taka mynd með framhlið og bakhlið símans á sama tíma og látið myndirnar renna saman. Hefðbundna myndavélin á bakhliðinni er 13 megapixlar en sú sem snýr fram er 2 megapixlar. Á sama tíma kynnti Samsung líka s.k. „Samsung Hub“ forrit í anda DropBox og Google Cloud, sem gerir notendum kleift að geyma skrár og nálgast þær á milli ólíkra Samsung tækja.

Skrollar sjálfkrafa í takt við augun

Sá búnaður símans sem hvað mestu púðri var þó varið í að kynna er ný, snertilaus tækni, s.k. „Smart pause“ og „Smart Scroll“, sem gengur út á það að síminn skynji augn-  og úlnliðshreyfingar notandans og bregðist við.

Með þessari tækni er hægt að stilla símann þannig að setji sjálfkrafa á pásu í myndskeiði sem verið er að horfa á ef notandinn lítur upp af skjánum og sömuleiðis greinir tæknin hvernig augun færast niður skjáinn og úlniðurin hreyfist þegar verið er að lesa texta, þannig að ekki þurfi að skrolla með fingrunum.

Vill fólk nota þetta?

Þessi nýjung hefur fengið misjafnar viðtökur tæknirýna. Sumir, s.s. Ernest Doku sem skrifar fyrir tæknisíðuna uSwitch.com, eru hrifnir. Hann segir þetta sniðugan möguleika sem muni án efa nýtast þeim sem noti símann mikið t.d. í þétt setnum almenningssamgöngum. „Sömuleiðis fyrir þá sem elska einfaldlega framúrstefnulega tækni sem auðveldar þeim lífið, þetta gefur Galaxy S4 ákveðna sérstöðu.“

Aðrir telja að of mikið af nýjum notkunarmöguleikum geti haft fælandi áhrif á suma notendur. „Stóra spurningin er sú hversu mikið af þessu dóti fólk mun raunverulega nota,“ segir tæknirýnirinn Charles Golvin í samtali við BBC.

„Það er engin spurning að [í símanum] er mikið af öflugri tækni og frumlegum möguleikum, en hvort fólk mun kæra sig um að nota þá er annað mál.“

Samsung Galaxy S4 fer í sölu í 155 löndum heims í lok apríl.

Nýi Galaxy S4 snjallsíminn frá Samsung var afhjúpaður í Radio …
Nýi Galaxy S4 snjallsíminn frá Samsung var afhjúpaður í Radio City Music Hall í New York í gærkvöldi. AFP
Nýi Galaxy S4 snjallsíminn frá Samsung var afhjúpaður í Radio …
Nýi Galaxy S4 snjallsíminn frá Samsung var afhjúpaður í Radio City Music Hall í New York í gærkvöldi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert