Farsíminn fertugur

Fjörtíu ár eru liðin í dag frá því að hringt var úr farsíma í fyrsta skipti. Var það verkfræðingur hjá bandaríska tæknifyrirtækinu Motorola sem hringdi í starfsbróðir hjá öðru tæknifyrirtæki og tilkynnti honum að hann væri að tala í alvöru farsíma. Þetta símtal fór fram þann 3. apríl 1973.

Árið 2012 kom fram í skýrslu International Telecommunication Union að það væru sex milljarðar farsímaáskrifta í heiminum. Á þeim tíma voru íbúar jarðarinnar sjö milljarðar talsins.

Í frétt á vef breska ríkisútvarpsins kemur fram að farsíminn hafi áður verið tæki kaupsýslumannsins en nú sé hann tenging neytenda við netið og allt sem hægt er að tengjast við rafrænt. Ekkert lát verði á þessari þróun og búast með við því að úrvalið komi til með aukast áfram.

Martin Cooper, sem er 85 ára að aldri, er þekktur sem faðir farsímans. Í viðtali við BBC fyrir nokkrum árum kom fram hjá honum að hann hafi gert sér grein fyrir því að farsíminn biði upp á ýmsa möguleika en kannski ekki allt það sem nú er mögulegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert