Kónguló á stærð við mannsandlit

Vísindamenn hafa uppgötvað risavaxna kónguló í Sri Lanka. Áttfætlan er á stærð við mannsandlit og er af ætt tarantúla og því eitruð.

Fætur kóngulóarinnar eru 20 sentímetrar á lengd. Kvendýrið er með gulan lit á fótunum og bleika rák yfir miðjan búkinn. Karldýrið er einlitara.

Vísindamenn fundu þessa nýju tegund á átakasvæðum í dreifbýli í Norður-Sri Lanka.

Kóngulóin hefur fengið heitið Poecilotheria rajaei, til heiðurs lögreglumanninum Michael Rajakumar Purajah, sem var leiðsögumaður vísindamannanna á ferð þeirra um frumskóginn.

Upplýsingar um áttfætluna risavöxnu komu fyrst fram fyrir um þremur árum. Þá fundu þorpsbúar karldýr og drápu til að sýna vísindamönnum.

Vísindamennirnir komust fljótt að því að um mjög óvenjulega kónguló var að ræða og ákváðu að reyna að finna tegundina á lífi.

Kóngulóin heldur til í gömlum trjám og er mjög fágæt. Þar sem sótt er að búsvæðum þeirra hafa þær einnig fundist í gömlum húsum.

Kóngulónni er sagt best lýst með orðunum: Litrík, fljót og eitruð.

Meira um kóngulóna má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert