Aðgangur að neyðarpillu skal óheftur

Plan B er meðal þeirra neyðarpilla sem eru á markaði.
Plan B er meðal þeirra neyðarpilla sem eru á markaði.

Dómari við alríkisdómstól í New York úrskurðaði í gær að allar konur á öllum aldri ættu að hafa óheftan aðgang að neyðarpillunni svokölluðu. Bandaríska matvæla- og lyfjastofnunin (FDA) hafði sett hömlur á aðgang ungra kvenna að lyfinu.

Í úrskurðinum sem birtur var á fimmtudag, segir dómarinn að FDA eigi að heimila kaup á neyðarpillunni án lyfseðils í lyfjaverslunum.

 Árið 2011 var ákveðið að stúlkur yngri en 17 ára þyrftu að fá lyfseðil til að fá neyðarpilluna.

Dómarinn Edward Korman er harðorður og segir að ákvörðun um að hefta aðgang að lyfinu hafi verið tekin vegna pólitísks þrýstings, án vísindalegra sannanna og án fordæma. Ekkert sýni fram á að lyfið sé heilsuspillandi.

Korman hefur fyrirskipað að lyfið verði gert aðgengilegt öllum konum innan 30 daga.

Allison Price, talsmaður dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, segir að verið sé að skoða úrskurðinn og að viðbragða við honum sé að vænta fljótlega.

Neyðarpilluna verður að taka innan fárra daga frá kynmökum til að hún sé árangursrík, segir í frétt LA Times um málið.

Mjög misjafnt er eftir ríkjum hversu aðgengilegt er fyrir konur að fara í fóstureyðingu. Yfirvöld í Norður-Dakota vilja banna allar fóstureyðingar. Yfirvöld í Arkansas freista þess að banna þær eftir 12 vikna meðgöngu. Aðeins eitt sjúkrahús í Mississippi framkvæmir fóstureyðingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert