Bannar aðskilnað síamstvíbura

Sabah og Farah eru 17 ára í dag, en þessi …
Sabah og Farah eru 17 ára í dag, en þessi mynd er tekin árið 2005 þegar þær voru 10 ára. RAVEENDRAN

Hæstiréttur Indlands komst að þeirri niðurstöðu í dag að of áhættusamt væri að skilja að 17 ára símastvíbura sem eru samvaxnir á höfði. Dómstóllinn bannaði því að reynt yrði að aðskilja systurnar nema að fram kæmu nýjar upplýsingar frá læknum um áhættu við aðgerðina.

Dómstóllinn benti á að systurnar, Saba and Farah Saleem, deila mikilvægum æðum í heila og að aðeins önnur stúlkan er með nýru. Rétturinn skyldaði héraðsstjórnina í Bihar að greiða foreldrum stúlknanna rúmlega 10 þúsund krónur á mánuði til að mæta lækniskostnaði sem stúlkurnar hafa þurft að bera. Stúlkurnar eru af fátæku fólki komnar.

Stúlkurnar segjast vera sáttar við dóminn. Þær muni halda áfram að búa saman eins og þær hafi gert frá fæðingu.

Prins frá Abu Dhabi hafði áður boðist til að greiða kostnað við skurðaðgerð sem miðaði að því að skilja stúlkurnar að. Þær höfnuðu þessu boði.

Ástæðan fyrir því að þetta mál fór fyrir dómstóla er sú að almenningur á Indlandi hefur sýnt stúlkunum mikinn áhuga og laganemi ákvað að höfða mál í þeim tilgangi að bæta stöðu þeirra og leita eftir fjármagni svo hægt væri að skilja þær að.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert