Hröð bráðnun íss á suðurheimskautinu

Suðurheimskautsísinn bráðnar tíu sinnum hraðar á sumrin nú en fyrir 600 árum. Síðustu 50 ár hefur hann bráðnað hraðar en nokkru sinni fyrr. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem unnin var í samvinnu Breta og Ástrala.

Rannsóknarhópur frá Ástralíu og Bretlandi boraði 364 metra langan ískjarna úr James Ross eyju sem er á norðurhluta suðurheimskautsins. Kjarninn var notaður til að meta hitastig á svæðinu.

Á kjarnanum má sjá þegar ísinn þiðnar á sumrin en frýs svo aftur á veturna. Með því að mæla þykkt þessara laga gátu vísindamennirnir metið sögu bráðnunar með tilliti til breytinga á hitastigi síðustu 1.000 árin.

„Við komumst að því að kaldast var á Suðurskautslandinu og þar með minnst bráðnun fyrir um 600 árum,“ segir leiðtogi rannsóknarhópsins, Nerilie Abram.

„Á þeim tíma var hitastigið um 1,6°C lægra en á 20. öldinni og sá snjór sem bráðnaði og fraus svo aftur var um 0,5% árlega. Í dag sjáum við að um 10 sinnum meira af snjónum sem fellur árlega bráðnar.“

Niðurstaðan sé sú að mest hafi bráðnunin verið á síðari hluta 20. aldarinnar.

Niðurstöðurnar eru birtar í vísindatímaritinu Nature Geoscience en þetta er í annað sinn sem bráðnun á suðurheimskautinu er mæld.

Vísindamennirnir segja að mjög lítil hitabreyting hafi mjög mikil áhrif á bráðnunina á suðurskautinu.

Hlaupari horfir á mörgæs er hann tók þátt í suðurskautsmaraþoninu …
Hlaupari horfir á mörgæs er hann tók þátt í suðurskautsmaraþoninu í mars, fyrsta maraþonhlaupinu sem haldið er á svæðinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert