66% Íslendinga eiga snjallsíma

66% landsmanna eiga snjallsíma.
66% landsmanna eiga snjallsíma. DON EMMERT

Tveir af hverjum þremur eiga snjallsíma og Samsung er vinsælasti snjallsíminn. Þetta kemur fram í könnun sem MMR gerði á framsímaeign landsmanna.

Vinsældir snjallsíma meðal Íslendinga halda áfram að aukast. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 66,4% eiga snjallsíma nú, borið saman við 53,8% í október 2012 og 38,0% í nóvember 2011. Til samanburðar sögðust 68% í Bretlandi eiga snjallsíma, 52% í Bandaríkjunum, 64% í Rússlandi og 60% í Brasilíu.

Af þeim sem tóku afstöðu sögðust flestir nota farsíma frá Nokia eða 32,6%. Þegar svarendahópnum var skipt eftir því hvort símtæki svarenda voru snjallsímar eða ekki kom hins vegar í ljós verulegur munur á fjölda notenda með Nokia síma. Þannig sögðust 78,0% þeirra sem nota hefðbundin símtæki mest nota Nokia-síma. Á móti voru aðeins 10,1% þeirra sem sögðust vera með snjallsíma með símtæki frá Nokia. Hlutdeild Nokia meðal snjallsímanotenda var því minni en meðal notenda á hefðbundnum farsímum. Hlutdeild Nokia á meðal snjallsímanotenda hefur minnkað stöðugt frá því í nóvember 2010 þegar hún mældist 50,8%.

Flestir snjallsímanotendur voru með símtæki frá Samsung eða 36,7% þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar. Hlutdeild Samsung meðal snjallsímanotenda hefur aukist stöðugt frá því í nóvember 2010 þegar hún mældist 3,8%. Hlutdeild Apple (iPhone) á snallsímamarkaði hefur einnig aukist og mælist nú 32,3%, borið samn við 5,6% árið 2010. Hlutdeild annarra framleiðenda á snjallsímamarkaði hefur ýmist staðið í stað eða dregist saman.

Af þeim sem tóku afstöðu nefndu flestir Samsung, Apple (iPhone) og Nokia meðal snjallsíma sem til greina kæmu ef slíkur sími væri keyptur í dag. Af þeim sem tóku afstöðu sögðu 74,5% að snjallsími frá Samsung kæmi til greina, 61,7% nefndu Apple (iPhone) og 33,7% nefndu Nokia.

Þegar spurt var hvaða vörumerki yrði líklegast fyrir valinu ef keyptur væri snjallsími í dag sögðu flestir Samsung og næstflestir sögðu Apple (iPhone). Hlutdeild Samsung meðal líklegra viðskiptavina á snjallsímamarkaði heldur áfram að aukast. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 45,2% að snjallsími frá Samsung yrði líklegast fyrir valinu, borið saman við 38,5% 2012 og 3,9% 2010. Hlutdeild Apple (iPhone) hefur hinsvegar staðið í stað frá 2011. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðu 37,1% að Apple (iPhone) yrði líklegast fyrir valinu, borið saman við 36,4% 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert