Ctrl-Alt-Del voru mistök

Bill Gates
Bill Gates AFP

Bill Gates, stofnandi Microsoft, hefur viðurkennt að skipunin „Ctrl-alt-delete“ hafi í raun verið hönnunarmistök sem festu sig í sessi. Hann segir að einn takki hefði auðveldlega getað dugað fyrir þessa aðgerð, það sé engin góð ástæða fyrir því að nota þarf þrjá fingur til verksins.

„Við hefðum alveg getað haft bara einn takka, en náunginn sem hannaði IBM lyklaborðin vildi ekki láta okkur fá einn takka eins og við báðum um,“ sagði Gates í ávarpi í Harvard háskóla.

Þetta er í fyrsta sinn sem Gates viðurkennir opinberlega hönnunargallann bak við Ctrl-alt-delete skipunina, en það mun hafa verið á vitorði margra í hugbúnaðargeiranum að maðurinn bak við mistökin sé David Bradley, hönnuður hjá IBM.

Bradley þessi talaði sjálfur um flýtileiðina alræmdu fyrir nokkrum árum þegar IBM átti 20 ára afmæli og vildi hann þá ekki lýsa ábyrgðinni algjörlega á hendur sér. „Ég fann þetta kannski upp, en það var Bill sem gerði þetta frægt,“ sagði Bradley.

Í ávarpinu, sem Gates flutti á fjáröflunarviðburði við Harvard, sagði hann þó að IBM hafi komið með margar snjallar lausnir á nýtingu lyklaborðsins, t.d. með útfærslu hástafa og lágstafa. „Við gátum verið með alls konar tilraunastarfsemi, en fyrst og fremst í hugbúnaðinum, minna í tölvubúnaðinum sjálfum.“

Gates stundaði sjálfur nám við Harvard en hætti námi til að stofna tölvufyrirtækið sem síðar gerði hann einn af ríkustu mönnum heims. Hann fékk þó á endanum heiðursgráðu við skólann, tæpum þremur áratugum síðar.

Hér að neðan má sjá Bill Gates ræða Ctrl-alt-delete:

Menn eru mishrifnir af skipuninni Ctrl+alt+delete
Menn eru mishrifnir af skipuninni Ctrl+alt+delete
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert