Plastefni gæti valdið fósturmissi

AFP

Eiturefnafræðingar hafa komist að því að konur sem eru með mikið magn af efninu bisphenol-A (BPA) í blóði sínu eru í 80% meiri hættu á að missa fóstur en þær sem eru með lítið magn efnisins í blóðinu.

Efnið BPA er m.a. í plasti sem notað er í matarílát. Sé matur hitaður í plastumbúðum örbylgjuofni getur BPA blandast matnum.

Í frétt Sky-fréttastofunnar um málið segir að þekkt sé að efnið hafi áhrif á hormóna og hafa rannsóknir sýnt fram á tengsl efnisins við ófrjósemi.

Vísindamenn við Stanford-háskóla í Kalifórníu fylgdust með 115 óléttum konum sem höfðu átt við frjósemisvanda að etja eða misst fóstur. 68 þeirra misstu fóstur á rannsóknartímanum.

Rannsóknin var birt í nýjasta hefti vísindatímaritsins  American Society of Reproductive Medicine. Vísindamennirnir segja að þar sem þátttakendur í rannsókninni voru fáir þurfi að gera frekari rannsóknir áður en endanlegar ályktanir eru dregnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert