Fundu fornar múmíur í Perú

Tvær múmíur, sem taldar eru vera yfir 1000 ára gamlar, hafa fundist í fornum grafreit í úthverfi Líma, höfuðborgar Perú. Fornleifafræðingar greindu frá þessu í dag. 

„Þetta er einhver merkilegasti fundur í þá rúmu þrjá áratugi sem unnið hefur verið að fornleifarannsóknum hér, því múmíurnar eru báðar í heilu lagi,“ hefur Afp eftir fornleifafræðingnum Gladys Paz.

Múmíurnar fundust í Huaca Pucllana grafhýsinu, sem er forn trúarleg bygging í hverfinu Miraflores í Líma. Fyrstu ummerki um grafhýsið fundist fyrir 5 dögum en það tók langan tíma að komast að múmíunum þar sem gæta þurfti þess að raska engu.

Múmíurnar eru af fullorðinni manneskju og barni. Þetta er í þriðja sinn sem heila múmíur finnast á svæðinu frá því byrjað var að rannsaka það árið 1981, en yfir 70 grafhýsi hafa verið opnuð. Grafhýsin voru reist sem pýramídar á tímabilinu 100 til 600 eftir Krist. 

Árið 2010 uppgötvuðu fornleifafræðingar grafhýsi konu sem grafin var með fjórum börnum sínum. Árið 2008 fannst heilleg múmía 13 ára gamallar stúlku. 

Múmíurnar tvær sem fundust í dag verða fluttar á rannsóknarstofu þar sem þær verða rannsakaðar næstu 4-6 mánuði, meðal annars til að reyna að komast að aldri og kyni hinna látnu.

Í grafhýsinu fundust einnig 7 leirker, sem notuð hafa verið til að drekka te, auk 12 taupoka og líkamsleifa þriggja naggrísa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert