Lík jörðinni en meðalhitinn 2000°C

Kepler sjónaukinn hefur fundið fjölda reikistjarna, þar á meðal Kepler-78b.
Kepler sjónaukinn hefur fundið fjölda reikistjarna, þar á meðal Kepler-78b.

Vísindamenn hafa fundið reikistjörnu utan við sólkerfið sem hefur svipaðan massa og jörðin. Kepler-78b er nafn plánetunnar en hún fannst með aðstoð Kepler geimsjónaukans. Talið er að plánetan sé góður fyrirboði um að fleiri plánetur, sem svipi til jarðarinnar, séu til.

Niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu Nature. Einn hópur vísindamanna komst að því að massi Kepler-78b væri 1,69 sinnum meiri en massi jarðarinnar á meðan annar hópur vísindamanna komst að þeirri niðurstöðu að massinn væri 1,86 sinnum meiri en massi jarðar.

Þá reiknuðu þeir út að eðlismassi plánetunnar væri 5,3 eða 5,57 grömm á hvern rúmsentímetra en eðlismassi jarðar er 5,5 grömm á rúmsentímetra.

Að sögn vísindamannanna er plánetan því afar lík jörðinni hvað massa, geisla og eðlismassa varðar.

„Tilvist hennar hjálpar okkur að uppgötva nýjar, lífvænlegar plánetur,“ segir Drake Deming, vísindamaður hjá Maryland-haskóla í Bandaríkjunum.

Kepler sjónaukinn hefur undanfarin ár numið ljós frá fjölda pláneta sem hafa svipaða eiginleika og jörðin. Talið er að góðar líkur séu á því að líf geti þrifist á mörgum þeirra, þó ekki á Kepler-78b, enda er meðalhitinn þar yfir 2000°C. Ekki er langt síðan NASA sagði að Kepler-sjónaukinn hafi fundið vel yfir þúsund plánetur þar sem hugsanlega séu skilyrði fyrir lífi. 

Þá hafa þeir vísindamenn, sem notað hafa Kepler sjónaukann, sagt að líkur séu á því að til séu yfir 17 milljarðar reikistjörnur, af svipaðri stærð og jörðin, á Vetrarbrautinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert