Vilja stöðva hinn illa Georg

Persónur ævintýrsins Flopalongs eru litríkar.
Persónur ævintýrsins Flopalongs eru litríkar. Jeff Chandler

Íslenski teiknimyndagerðarmaðurinn Þröstur Bragason hefur nú hafið samstarf við bandaríska leikfangaframleiðandann John Robert Greene. Stefna þeir að því að framleiða stuttmynd um ævintýri Flopalongs, en það er hugarfóstur Greene. Markmið þeirra er að fræða börn um allan heim um dýr í útrýmingarhættu með því að tvinna saman ímyndunarafli og raunveruleika.

Vilja bjarga dýrum í útrýmingarhættu

Flopalongs sagan var upphaflega teiknimyndasaga sem hefst á eyju í eigu Georgs, en hann er samviskulaus illvirki sem misnotar allar þær náttúruauðlindir sem hann kemst í. Hann hefur komið sér upp einkadýragarði, en þar er að finna helstu persónur þáttarins.

Kvöld eitt sleppur drekinn Igbot úr prísundinni og kemst í tæri við dularfullan loftstein sem gefur honum ofurkrafta. Hann snýr svo til baka og deilir þessum kröftum með vinum sínum. Því næst sleppa þau öll út og þar með hefst barátta þeirra við Georg og hans fylgismenn, en lokamarkmiðið er að bjarga öðrum dýrategundum sem eru í útrýmingarhættu og stöðva hinn illa Georg.

Hafa lengi stefnt að útgáfu þáttanna

„Við höfum lengi stefnt að því að koma verkefninu af stað og núna var loksins rétti tíminn,“ segir Þröstur, en þeir Greene hafa verið vinir síðan sá fyrrnefndi fór erlendis í skiptinám. Þröstur verður verkefnisstjóri og þrívíddarlistamaður við gerð myndarinnar og sér um gerð hennar hér á landi.

Leikfangaframleiðandinn Greene Toys vonast til að geta safnað nægilega hárri upphæð til að framleiða stuttmyndina sem verður síðan sýnd fjárfestum og í framhaldinu verður framleidd sjónvarpsþáttaröð um hin spennandi ævintýri Flopalongs.

Að sögn Þrastar var ákveðið að fara þá leið að skrá verkefnið hjá hópfjármögnunarsíðunni Karolinafund. Stefnt er að því að safna rúmum 800 þúsund krónum, eða 5000 evrum. „Við vildum prófa hópfjármögnunarleiðina hjá á landi. Sagan um Flopalongs snýst um náttúruvernd og þar er Ísland framarlega í huga margra,“ segir Þröstur. Markmiðið er að framleiða þættina aðallega hér á landi.

Aðspurður segir Þröstur að þættirnir gætu heillað börn á aldrinum þriggja til átta ára. „Þetta er líka fræðsluefni fyrir forvitna krakka,“ segir hann.

Hópfjármögnun Flopalongs á Karolinafund

Íslenski teiknimyndagerðarmaðurinn Þröstur Bragason hefur nú hafið samstarf við bandaríska …
Íslenski teiknimyndagerðarmaðurinn Þröstur Bragason hefur nú hafið samstarf við bandaríska leikfangaframleiðandann John Robert Greene. Úr einkasafni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert