Sólin snýst á næstu vikum

Sólin
Sólin

Pólskipti verða á sólinni á næstu vikum þegar segulpólar sólarinnar í norðri og suðri skipta um stað. Segulsvið sólarinnar er mikill áhrifavaldur í sólkerfinu og hafa breytingarnar því hafa víðtæk áhrif, þar á meðal á jörðinni.

Skiptin verða á ellefu ára fresti þegar sólin er í svokölluðu sólblettahámarki. Pólskiptin geta haft nokkur áhrif á geimveðrið í sólkerfinu, gervihnetti þar á sveimi og jafnvel valdið bilunum í útvarpssendum. Þá geta skiptin einnig haft áhrif á loftslag jarðar. Sky news greinir frá þessu.

Segulsviðið „flippar“

„Á ellefu ára fresti nær sólin hámarki í virkni sinni og þegar hámarkið er í gangi „flippar“ segulsviðið. Þá hefst ný sólblettasveifla, sem aftur nær hámarki ellefu árum síðar,“ segir Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.

Hann segir pólskiptin ekki hafa teljandi áhrif, sólin haldi áfram að senda frá sér sólvind og sólblossa, sem sérstaklega eru í gangi þegar sólin er í hámarki líkt og nú. Hann telur þó að erfitt geti verið að spá fyrir um hvenær pólskiptin verða af mikilli nákvæmni.

Hvað eru sólblettir?

Sólblettir eru dökkleitu svæðin á sólinni og myndast þar sem sterkt segulsvið hindrar að heitara gas stígi upp, en þeir eru því svalari en önnur svæði sólarinnar, samkvæmt upplýsingum á stjörnufræðivefnum.

Fjöldi þeirra er óstöðugur og breytist töluvert yfir þetta ellefu ára sólblettasveiflu tímabil. Sólarblettalágmörk hafa verið tengd svalara loftslagi á jörðinni á meðan sólblettahámörk tengjast hlýrra loftslagi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert