Galið að eyða helíum í partíblöðrur?

Blöðrur með helíum.
Blöðrur með helíum.

Frumefnið helíum er fágætt hér á jörð þó að það sé eitt það algengasta í alheiminum. Það er eitt fárra frumefna sem leka úr lofthjúpi jarðar og út í geim. Því þykir sumum vísindamönnum það fráleitt að nota það til þess að blása upp partíblöðrur. Þeir telja að einn góðan veðurdag gætu birgðir þess á jörðu gengið til þurrðar. Þegar hefur skorts orðið vart en það finnst aðallega sem jarðgas.

Suðu- og bræðslumark þess er það lægsta á meðal frumefnanna og er það því lykilefni í seglum sem notaðir eru í mikilvæg myndgreiningatæki á sjúkrahúsum.

„Við notum og dreifum öðrum frumefnum um hnöttinn og kannski getum við grafið á ruslahaugum til að finna þau aftur,“ segir efnafræðingurinn Andrea Sella, í samtali við BBC. „En helíum er einstakt. Þegar það er farið þá er það glatað eilífu.“

„Við munum líta til baka og hugsa að við trúum því ekki að fólki hafi notað það til að fylla blöðrur, þar sem það er svo dýrmætt og einstakt,“ segir bandaríski efnafræðingurinn Peter Wothers, sem vill að hætt verði að nota helíum til þess að blása upp blöðrur. 

En þá verður ekki lengur hægt að bregða á leik í boðum með því að anda að sér helíum úr blöðrum og tala með „strumparödd“ eins og sumir kalla það. Það væri þó ekki endilega alslæmt þar sem dæmi eru um að slíkur gjörningur valdi svima, höfuðverk og jafnvel dauða.

Gastegundin helíum verður til við niðurbrot geislavirks bergs í jarðskorpunni. Hún safnast svo saman sem jarðgas og vinna gasfyrirtæki hana sem hliðarafurð úr jörðunni.

Mesta vinnslan er í Bandaríkjunum, aðallega í Texas eða um 35% af allri framleiðslu heimsins.

Vinnslan hófst árið 1925 er helíum var notað í loftskip bandaríska hersins. Eftir að slík farartæki voru aflögð var efnið notað til að kæla loftskeyti og eldflaugar hjá hernum og NASA.

Verð á helíum hefur tvöfaldast á tíu árum.

Lesið frétt BBC í heild hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert