Lifir hún af stefnumótið við sólina?

Ison á leið sinni að sólinni.
Ison á leið sinni að sólinni. AFP/NASA

Stjörnufræðingar bíða spenntir eftir að sjá hvort að halastjarnan Ison, sem fer framhjá sólinni í dag, standist álagið á því stefnumóti.

KL. 18.35 í dag mun Ison komast næst sólinni. Ison hefur stundum verið kölluð „halastjarna aldarinnar“ en nú velta stjörnufræðingar því fyrir sér hvort hiti og aðdráttarafl sólarinnar reynist henni ekki um megn og eyði henni. Sumir segjast reyndar þegar sjá þess merki, hún sé ekki sjálfri sér lík.

Í frétt BBC er haft eftir prófessornum Tim O'Brien að það verði erfitt fyrir Ison að halda velli „Þetta er eins og að henda snjóbolta á eld,“ segir hann. Hins vegar sé Ison stór halastjarna og að hún muni aðeins eyða skömmum tíma í mikilli nánd við sólina.

Ison tilheyrði áður Oort-skýinu sem er í útjaðri sólkerfis okkar. Halastjarnan hefur verið að nálgast jörðina á um milljón kílómetra hraða á klukkustund. En nú nálgast ögurstund á þessu ferðalagi.

Þegar Ison verður sem næst sólu munu aðeins 1,2 milljón kílómetrar skilja að. Og sólin mun ekki sýna neina vægð, segir Mark Bailey, prófessor á Norður-Írlandi, við BBC. Hitinn og aðdráttaraflið mun ógna halastjörnunni.

Vísindamenn eru hræddir um að örlög Ison gætu orðið þau sömu og halastjörnunnar Lovejoy sem brotnaði í sundur er hún fór fram hjá sólinni árið 2011. 

Ef Ison helst í heilu lagi mun sólin magna upp gös og ryk í kjarna hennar og mun hún þá skilja eftir sig upplýsta slóð á næturhimninum. 

Stjarnan mun þó ekki sjást á morgunhimni yfir Íslandi fyrr en í byrjun desember, að því er fram kemur á Stjörnufræðivefnum. Þá gæti hún orðið björt og fögur lágt á himninum yfir Íslandi. „Hve áberandi hún verður er ómögulegt að segja til um fyrr en í ljós er komið, hvort hún stendur af sér ferðalagið framhjá sólinni,“ segir í fréttinni.

Frétt Stjörnufræðivefsins um Ison

Sjá frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert