Léttburafæðingum fjölgaði eftir hrun

AFP

Léttburafæðingum fjölgaði á Íslandi í kjölfar efnahagshrunsins samkvæmt nýrri rannsókn Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum við læknadeild Háskóla Íslands. Rannsóknina vann Védís Helga Eiríksdóttir, doktorsnemi í lýðheilsuvísindum, í víðtækri samvinnu við innlenda og erlenda vísindamenn og birtust niðurstöður þeirra í vísindatímaritinu PLoS One í gær.

Fyrri rannsóknir benda til að álagstengdir viðburðir geti haft áhrif á framvindu meðgöngu og útkomur fæðinga  en börn sem fædd eru of létt eða fyrir tímann eru í aukinni áhættu á nýburadauða auk ýmiss konar heilsufarsvandamála þegar fram líða stundir.

Í rannsókninni könnuðu Védís og samstarfsfólk tíðni léttbura- og fyrirburafæðinga fyrir og eftir efnahagshrunið á Íslandi.  Með léttburafæðingum er átt við börn sem eru léttari en 2500 grömm við fæðingu, fyrirburar teljast þau sem börn fæðast  fyrir 37. viku meðgöngu. Rannsóknin náði til allra lifandi fæddra einbura á Íslandi frá byrjun árs 2006 til loka árs 2009 þar sem tíðni léttbura- og fyrirburafæðinga eftir efnhagshrunið í október 2008 er borin saman við tíðni slíkra fæðingaútkomna á fyrri hluta rannsóknatímabilsins, samkvæmt tilkynningu.

Rannsókn Védísar leiddi í ljós að léttburafæðingar voru marktækt fleiri í kjölfar efnahagshrunsins en árin á undan, sérstaklega meðal mæðra yngri en 25 ára og mæðra sem voru ekki á vinnumarkaði. Fjölgunin var mest afgerandi sex til níu mánuðum eftir hrunið. Hins vegar fjölgaði fyrirburafæðingum ekki í kjölfar hrunsins. Niðurstöðurnar benda því til þess að fjölgun léttburafæðinga megi fremur rekja til hægari fósturvaxtar en styttri meðgöngutíma barna.

Niðurstöður þessarar rannsóknar benda enn fremur til þess að áföll af þeirri stærðargráðu sem efnahagshrunið á Íslandi var, geti haft í för með sér neikvæð áhrif á ófrískar konur og börn í móðurkviði, segir ennfremur í tilkynningu..

Grein Védísar og samstarfsfélaga

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert