Vatn í lofthjúpi fjarreikistjarna

Júpiter og WASP-17b.
Júpiter og WASP-17b. Ljósmynd/Wikipedia

Tvö teymi vísindamanna hafa með Hubble-stjörnusjónaukanum fundið veikar vísbendingar um að vatn sé að finna í lofthjúpi fimm fjarlægra reikistjarna. Áður hafa fundist merki um vatn í lofthjúpi fjarreikistjarna en þetta er fyrsta rannsóknin þar sem styrkur vatnsins er mældur og borinn saman á nokkrum reikistjörnum.

Magn vatns í lofthjúpi reikistjarnanna fimm var mismikið en þær nefnast WASP-17b, HD209458b, WASP-12b, WASP-19b og XO-1b. Mest reyndist af því á WASP-17b og HD209458b.

„Þessi rannsókn opnar dyrnar að því að bera saman hversu mikið vatn er til staðar í lofthjúpum mismunandi reikistjarna, til dæmis á heitari reikistjörnum miðað við kaldari,“ segir Avi Mandell, reikistjörnusérfræðingur við Goddard-geimrannsóknastofnun NASA.

Útblásnir lofthjúpar

Reikistjörnurnar fimm eru risavaxnar veraldir sem eru á braut sem liggur afar nærri stjörnum þeirra. Þær tilheyra flokki reikistjarna sem ganga undir nafninu heitir Júpíterar en það eru gasrisar með stóran radíus en litla eðlisþyngd. Hitinn frá stjörnunum sem þær ganga um og innri hiti þeirra verður þess valdandi að lofthjúpur þeirra verður útblásinn.

Hubble-sjónaukinn er einn af fáum sem geta rýnt í lofthjúpa fjarreikistjarna í fleiri milljarða kílómetra fjarlægð frá sólkerfi okkar. Slíkar rannsóknir er aðeins hægt að gera ef menn koma auga á fjarreikistjörnurnar þegar þær ganga fyrir framan stjörnur sínar frá jörðu séð.

Vísindamenn geta greint lofttegundir í lofthjúpunum með því að ákveða hvaða bylgjulengdir ljóssins frá stjörnunni berast áfram og hverjar síast burt í lofthjúpnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert