Tæplega milljarður jarðarbúa reykir

Breski rokkarinn Keith Richards hefur reykt í áratugi.
Breski rokkarinn Keith Richards hefur reykt í áratugi. EPA

Þrátt fyrir að reykingar njóti sífellt minni vinsælda víða um heim þá fer reykingarmönnum fjölgandi. Vísindamenn við háskólann í Washington í Bandaríkjunum segja að daglegir reykingarmenn hafi verið 967 milljónir árið 2012 samanborið við 721 milljón árið 1980. Þetta byggir á upplýsingum frá 187 löndum.

Vísindamennirnir, sem hafa birt niðurstöður sínar í vísindaritinu Journal of American Medical Association, segja að aukningin tengist fólksfjölgun í heiminum. BBC fjallar um rannsóknina á fréttavef sínum.

Þeir benda á að jarðarbúar séu í dag tvöfalt fleiri en þeir voru fyrir hálfri öld, eða um sjö milljarðar. Þar af leiðandi sé einfaldlega til fleira af fólki sem byrjar að reykja. 

Fram kemur, að reykingarmönnum hafi á undanförnum árum farið fjölgandi í nokkrum fjölmennum ríkjum á borð við Kína, Rússland og Bangladess.

Þá segja þeir að hlutfall reykingarmanna sé hæst í þróunarríkjum. Á móti kemur að hlutfall jarðarbúa sem reykja hefur farið lækkandi. 

Um 31% karla og 6% kvenna reykja nú daglega en árið 1980 reyktu 41% karla daglega og 10% kvenna. 

Tóbaksnotkun er hlutfallslega mest á Austur-Tímor, en þar reykir 61% landsmanna daglega. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert