Bað vísindamenn um að búa til dreka

Vísindaráð Ástralíu hefur beðið sjö ára gamla stúlku afsökunar á að hafa ekki tekst að búa til fyrir hana eldspúandi dreka. Ber ráðið fyrir sig að þessar goðsagnakenndu verur hafi ekki verið nægjanlega rannsakaðar af vísindaráðinu þau 87 ár sem það hefur starfað.

Hin sjö ára gamla Sophie ritaði til „elskulegra vísindamanna“ líkt og fram kemur í bréfi hennar sem hún sendi til Commonwealth Scientific and Industrial Research Organisation (CSIRO), þar sem hún spurði kurteislega um hvort þeir gætu búið til fyrir hana vængjað gæludýr.

„Ég myndi nefna það Toothless (Tannlaus) ef það væri stelpa og ef það væri strákur myndi ég nefna hann Stuart,“ skrifar Sophie í bréfinu. Þar heitir hún því að gefa drekanum hráan fisk að éta og leika við hann þegar hún væri ekki í skólanum.

Toothless er nafnið á drekanum sem er vinur stráksins í barnabókunum How to Train Your Dragon þar sem segir af víkingadreng sem vingast við dreka. Íslenskir kvikmyndaáhugamenn kannast við sögurnar úr kvikmyndinni How to Train Your Dragon. Stuart er hins vegar nafn föður Sophie.

Bréfið snerti greinilega vísindamennina í Vísindaráðinu sem ekki sendir oft frá sér slíkar afsökunarbeiðnir og viðurkennir að á 87 ára starfsferli ráðsins hafi þeim yfirsést að rannsaka dreka og hvernig ætti að búa þá til eða hvernig drekaegg séu búin til.

En sem sárabót þá bjuggu vísindamennirnir til Toothless með þrívíddarprentun úr títaníum í rannsóknarstofu í Melbourne.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert