Mæður í Bretlandi hamingjusamastar

AFP

Mæður eru ánægðastar með lífið af öllum þjóðfélagshópum í Bretlandi samkvæmt niðurstöðum viðamikillar rannsóknar þar í landi, jafnvel þó þær séu í óhamingjusömu sambandi. Fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph segir frá niðurstöðunum í dag.

Fram kemur í fréttinni að yfir 5 þúsund hafi tekið þátt í rannsókninni sem hafi staðið yfir í tvö ár en hún var framkvæmd af Open University og sneri að samböndum fólks. Mikill munur er á stöðu fólks í samböndum eftir því hvort það á börn eða ekki sem og á milli kvenna og karla.

Þannig eru konur sem eiga börn líklegri til þess að segjast óhamingjusamar í samböndum sínum en á sama tíma á heildina litið hamingjusamastar af þeim sem tóku þátt í rannsókninni. Barnlausar konur eru hins vegar á meðal þeirra sem segjast óhamingjusamastir jafnvel þó þær séu hvað ánægðastar í samböndum sínum.

Hins vegar eru karlmenn í samböndum sem eiga börn aðeins óhamingjusamari en barnlausir karlmenn í samböndum. Konur séu líklegri til þess að beina athygli sinni að börnunum eftir að verða foreldri sem makinn hefur tilhneigingu til þess að verða ósáttur við.

Þegar konur sem tóku þátt í rannsókninni voru beðnar að nefna mikilvægasta einstaklinginn í lífi þeirra nefndi rúmur helmingur þeirra börnin sín en aðeins fjórðungur karlmannanna. Hins vegar nefndu 2/3 karlanna maka sinn en aðeins þriðjungur kvennanna.

Frétt Daily Telegraph

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert