Kaldari veður og sjaldséð norðurljós?

Eins og sést á myndinni er sólin ekki eins björt …
Eins og sést á myndinni er sólin ekki eins björt um þessar mundir og oft áður. Ljósmynd/NASA

Framundan er tímabil þar sem virkni sólarinnar verður ekki eins mikil og undanfarna áratugi og má jafnvel búast við mun kaldari veðráttu á jörðinni næstu átatugina en verið hefur lengi og þá einkum í Evrópu. Þetta er meðal þess sem fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC. Sólin hafi um þessar mundir náð hámarki sólblettasveiflu sinnar sem gerist á 11 ára fresti en strax sé hins vegar farið að draga hratt úr virkni hennar og hraðar en vísindamenn hafi reiknað með.

Fram kemur í fréttinni að sólin ætti að sögn þeirra vísindamanna sem rætt er við að vera enn í hámarkinu en sú sé hins vegar ekki raunin, en meðal vísindamannanna er Richard Harrison, forstöðumaður stjarneðlisfræðirannsókna við Rutherford Appleton Laboratory í Oxfordshire í Bretlandi, sem segist ekki hafa orðið vitni að öðru eins á þeim 30 árum sem hann hafi fengist við rannsóknir á þessu sviði. Hann segir að virkni sólar hafi ekki verið jafnlítil og nú síðan fyrir eitt hundrað árum.

Fylgst náið með virkni sólarinnar

Sömuleiðis er haft eftir dr. Lucie Green, sem stundar rannsóknir í stjarnvísindum við University College London að þessi hegðun sólarinnar hafi komið henni og mörgum öðrum vísindamönnum mjög á óvart. Ennfremur segir að vísindamenn fylgist vel með því hvort virkni sólarinnar haldi áfram að minnka jafnhratt og undanfarið. Green segir að þessi þróun gæti leitt til þess að sólin yrði mjög lítið virk rétt eins og hún væri sofandi. Það yrði þó ekki í fyrsta skiptið sem slíkt gerðist.

Rifjað er upp að þannig hafi ástandið til að mynda verið á síðari hluta 17. aldar. Þá hafi sólin gengið í gegnum tímabil þar sem virkni hennar hafi verið mjög lítil en tímabilið er kallað upp á ensku „The Maunder Minimum“. Sagnfræðilegar heimildir hermi að þá hafi sólblettir nánast horfið. Haft er eftir Green að sterkar vísbendingar séu um að sólin hegði sér með sama hætti núna og í aðdraganda þessa tímabils.

Ekki minnkað hraðar í 10.000 ár

Mike Lockwood, prófessor við University of Reading í Bretlandi, tekur undir það að umtalsverðar líkur séu á að framundan sé tímabil þar sem virkni sólarinnar minnki mjög mikið. Vísar hann í ískjarnasýni sem bendi til þess að ekki hafi dregið jafn hratt úr virkni sólarinnar undanfarin 10.000 ár. Hann telji að talsverðar líkur séu á að innan næstu 40 ára verði ástandið svipað því sem var á „The Maunder Minimum“.

Fram kemur í fréttinni að aðstæður á umræddu tímabili hafi verið mjög erfiðar vegna kulda. Þannig hafi Eystrasaltið frosið og sama sé að segja um Thames-ána í London. Sumir hafi jafnvel viljað kalla tímabilið litla ísöld. Lockwood telur að þetta ástand kunni að hafa verið að hluta til afleiðing af minnkandi virkni sólarinnar og haldið núverandi þróun áfram gæti slíkt gerst á nýjan leik.

„Þetta er flókin skepna“

Haft er eftir Green að minnki virkni sólarinnar verulega kunni ein birtingarmynd þess að verða sú að norðurljósin verði sjaldséð en þau séu nátengd virkni hennar. „Ef virkni sólarinnar minnkar verulega væri eitt af því sem gerðist að við sæjum norðurljósin mjög sjaldan. Drifkraftur þeirra er virkni sólarinnar og við myndum verða af þessu fallega náttúrufyrirbæri.“

Frétt BBC lýkur á þeim orðum að vísindamenn geri sér ekki fullkomlega grein fyrir því hverjar afleiðingar minni virkni sólarinnar gætu orðið en þeir séu hins vegar sammála um sólin sé ófyrirsjáanleg og hvað sem er gæti í raun gerst næst. Haft er eftir Harrison að framundan virðist einkennilegt tímabil en það sýni líka að vísindamenn skilji í raun ekki nákvæmlega hvernig sólin virki. „Vegna þess að hún er flókin - þetta er flókin skepna.“

Ljósmynd/NASA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert