Ekki verk trölla í reiðikasti

Horft meðal annars yfir Skaftá og Skælinga.
Horft meðal annars yfir Skaftá og Skælinga. mbl.is/Rax

Þeir sem gengið hafa hina vinsælu leið um Sveinstind og Skælinga, meðfram Skaftá, hafa ef til vill orðið varir við um fjörutíu 2,5 metra háa grjótastólpa. Sagan segir að á sínum tíma hafi tröll í miklu reiðikasti kastað grjóthnullungum hvert í annað og að með þeim hætti hafi stólparnir myndast.

Svo virðist sem að sagan, þótt skemmtileg sé, sé ekki sannleikanum samkvæmt, ef marka má nýja rannsókn.

Tracy Gregg, sem er eldfjallafræðingur við Buffalo-háskólann, og nemandi hans, Kenneth Christle, hafa í nýrri rannsókn skýrt út hvernig grjótastólparnir urðu upphaflega til og hrakið söguskoðun margra um þeir hafi myndast eftir mikil rifrildi reiðra trölla.

Þeir komust að þeirri niðurstöðu að stólparnir áttu sér jarðfræðilegar orsakir. Þeir hafi myndast eftir eldgosið í Lakagígum árið 1783 en allt ferlið stóð yfir í fáeina klukkutíma, að því er fram kemur í rannsókninni.

Haft er eftir Tracy Gregg á vefsíðu Discovery News að það hafi verið hreint út sagt ótrúlegt að sjá þessa stólpa í fyrsta sinn, en þeir félagar lögðu leið sína hingað til lands gagngert til að skoða þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert