Fólk sem á sjónvarp, bíl og tölvu er feitara

Íbúar fátækari þjóða verða sífellt feitari eftir því sem fleiri …
Íbúar fátækari þjóða verða sífellt feitari eftir því sem fleiri taka upp vestrænan lífsstíl. mbl.is/ÞÖK

Íbúar fátækari þjóða verða sífellt feitari eftir því sem fleiri taka upp vestrænan lífsstíl og þeir sem eiga bíla, sjónvörp og tölvur eru líklegri en aðrir til að vera of feitir. Þetta sýnir ný kanadísk rannsókn. Í niðurstöðum hennar kemur m.a. fram að gera þurfi ráðstafanir til að koma í veg fyrir versnandi heilsufar hjá þeim þjóðum sem eru að taka upp vestrænan lífsstíl.

Um 154.000 manns frá 17 löndum tóku þátt í rannsókninni. Í ljós kom að sjónvarp er algengasta raftækið í þróunarlöndunum þar sem um 78% heimila áttu slíkt tæki, á 34% heimila var tölva og á 32% heimila var bíll.

Á um 4% heimila í fátækari löndum var þetta þrennt til, en á 83% heimila í ríkari löndum. Þeir sem eiga þetta allt hreyfa sig minna og eru feitari en þeir sem ekki eiga neitt af þessu þrennu, samkvæmt rannsókninni. Tíðni offitu hjá þeim íbúum þróunarlandanna sem eiga allt þrennt af ofantöldu er 14,5% en 3,4% meðal þeirra sem eiga ekki neitt af þessu þrennu.

„Sama þróun og á Vesturlöndum gæti orðið hjá tekjulægri þjóðum; meiri kyrrseta, minni hreyfing og meiri hitaeininganeysla,“ segir Scott Lear, einn rannsakenda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert