Íslendingar borða of mikið salt

Unnar kjötvörur geta verið saltríkar og ráðlegt að skoða merkingar …
Unnar kjötvörur geta verið saltríkar og ráðlegt að skoða merkingar á umbúðum vel. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Þrátt fyrir að saltneysla Íslendinga hafi minnkað um 5% frá árinu 2002 borða Íslendingar enn of mikið salt. Landlæknisembættið vekur athygli á þessu, í tilefni af alþjóðlegri viku sem tileinkuð er minni saltneyslu.

Meðalneysla íslenskra karla á salti er 9,5 g á dag og konur neyta 6,5 g af salti á dag að meðaltali, samkvæmt niðurstöðum landskönnunar á mataræði fullorðinna, sem fram fór 2010-2011.

Þörfin fyrir salt er hinsvegar ekki meiri en 1,5 g á dag, og samkvæmt nýjum norrænum ráðleggingum er ekki mælt með því að borða meira en 6 g á dag.

Íslendingar af báðum kynjum borða því að jafnaði of mikið salt, en með því að draga úr saltneyslu má m.a. draga úr hækkun blóðþrýstings, sem er einn af áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma. Minni saltneysla geti dregið úr líkum á ákveðnum tegundum krabbameins. 

Erfitt getur verið gott fyrir fólk að átta sig á því hversu mikið salt það borðar frá degi til dags, því stærstur hluti salts í fæðunni, eða um 75%, kemur úr unnum matvælum eins og kjötvörum, brauði, osti, pakkasúpum og sósum, tilbúnum réttum og skyndibitum.

Landlæknisembættið bendir á að til að draga úr saltneyslu sé ráðlagt að sneiða hjá saltríkum vörum, takmarka salt í matreiðslu og við borðhald en nota annað krydd eða kryddjurtir í staðinn.

Sjá nánar á vef Landlæknis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert