„Kjúklingurinn frá helvíti“ var fáránlegur

Svona er talið að eðlan hafi litið út.
Svona er talið að eðlan hafi litið út.

Hún er uppnefnd „kjúklingurinn frá helvíti“, fiðraða risaeðlan sem nýlega var uppgötvuð. Eðlan sú var jafnhá manni og hélt til í Norður-Ameríku fyrir að minnsta kosti 66 milljónum ára.

Eðlan var með kamb á höfðinu, langa fætur líkt og strútur, beittar klær og kjálka byggðatil að brjóta egg og beinin í bráð sinni. Hún er talin hafa verið um 200-300 kíló að þyngd, fullvaxin.

Eðlan er kölluð anzu wyliei og var með langan hala. Hún er talin stærsta eðlan í flokki svokallaðra „eggjaþjófa“ sem kallaðir eru oviraptorosaurs á ensku. Þær eðlur voru náskyldar fuglum, samkvæmt rannsókninni sem birt er í vísindatímaritinu Plos One.

„Við kölluð þetta kvikindi kjúklinginn frá helvíti í gríni og ég held að það sé nokkuð nákvæm lýsing,“ segir aðalhöfundur rannsóknarinnar, Matt Lamanna sem starfar við Náttúruminjasafnið í  Pittsburgh í Pennsylvaníu.

Safn steingervinga af þessu fiðraða dýri varð til þess að vísindamennirnir gátu greint eðluna. 

„Hún hefur verið ógurleg, og fáránleg,“ segir einn höfunda rannsóknarinnar, Emma Schachner.

Eðlan fékk nafnið Anzu sem er djöfull í fuglslíki samkvæmt mesópótamískum goðsögnum.

Steingervingunum af safnað í yfir áratug á svæði sem kallast Hell Creek í Norður- og Suður-Dakóta. Þar hafa í gegnum árin fundist margir steingervingar risaeðla, m.a. steingerð grameðla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert