Sjötíu taka farsímaskilríki gild

Hægt er að nota farsímann sem rafræn persónuskilríki.
Hægt er að nota farsímann sem rafræn persónuskilríki.

Sjötíu fyrirtæki og stofnanir hafa nú bæst í hóp þeirra sem bjóða viðskiptavinum sínum að auðkenna sig í gegnum farsíma. Ríflega þúsund viðskiptavinir Símans hafa þegar virkjað SIM-kortin sem persónuskilríki.

Meðal þeirra fyrirtækja sem nú bjóða viðskiptavinum sínum að auðkenna sig í gegnum farsíma eru Orkuveita Reykjavíkur, Tryggingastofnun, Rafræn Reykjavík og Vinnumálastofnun. Tugir framhaldsskóla bjóða nemendum sínum að auðkenna sig með þessum hætti.

Aðeins 5% hafa virkjað skilríkin

Öll ný SIM-kort frá Símanum urðu skilríkjahæf í nóvember – rétt eins og debetkort eru. Um 20.000 viðskiptavinir Símans hafa réttu SIM-kortin fyrir auðkenninguna, samkvæmt upplýsingum Símans.

Þar af hafa hinsvegar aðeins ríflega 1.000 virkjað skilríkin, enda hafa aðeins 3 fyrirtæki boðið fólki að nýta þau sem persónuskilríki hingað til. Nú hefur það hinsvegar breyst og 70 fyrirtæki og stofnanir til viðbótar bæst við.

Einfalda viðskipti á netinu

Persónuskilríki í símanum eru talin öruggt auðkenni og þau einfalda viðskipti á netinu þar sem þau gera öll notenda- og lykilorð óþörf. Aðeins þarf að muna eitt pin-númer, sama hvert þjónustan er sótt. Þau má nota bæði sem auðkenningu og til undirritunar.

Ekki þarf kortalesara, sérstakan hugbúnað eða öpp til að nýta farsímaskilríkin, aðeins þarf að hafa farsímann við höndina.

Sjá lista yfir alla þá sem styðja notkun rafrænna skilríkja í farsímum.

Kannaðu hvort þú ert með rétt SIM kort.

Nánari upplýsingar um farsímaskilríki

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert