App fyrir fólk með fæðuofnæmi og óþol

All Alert I
All Alert I

Fjöldi góðra hugmynda kviknar á hverju vori hjá nemendum í áfanganum Nýsköpun og stofnun fyrirtækja í Háskólanum í Reykjavík. Sumar hugmyndirnar verða að veruleika, fólki til gagns og gamans. Hugmyndin að appinu All Alert fyrir snjallsíma kviknaði fyrir tveimur vikum og hjálpar fólki með fæðuofnæmi að sjá hvað matvörurnar í versluninni innihalda. Appið er að verða að veruleika.

Nemendur úr hinum ýmsu deildum HR sækja námskeiðið Nýsköpun og stofnun fyrirtækja. Á námskeiðinu eiga nemendur að finna viðskiptahugmynd og þróa hana áfram meðan á námskeiðinu stendur, eða í þrjár vikur. Ýmislegt hefur komist á skrið á þessu námskeiði í gegnum tíðina.

Fyrir tveimur vikum voru sjö nemendur leiddir saman til að mynda einn af mörgum hópum námskeiðsins; tveir úr viðskiptafræði, þrír úr verkfræði, einn úr sálfræði og einn úr lögfræði. Þetta eru þau Anton Ívar Róbertsson, Arna Harðardóttir, Brynhildur Ýr Ottósdóttir, Hafsteinn Esekíel Hafsteinsson, Katrín Sara Hinriksdóttir, Þóra Björg Sigmarsdóttir og Þórdís Ólöf Viðarsdóttir. Þau þekktust ekkert þá en eru orðin nokkuð náin núna.

Hugmyndin verður til

Strax á fyrsta degi fæddist hugmyndin og fyrirtækið Sól 4 var stofnað. Hugmyndin er snjallsímaforritið eða appið All alert og er ætlað þeim sem eru með fæðuofnæmi eða óþol og á að auðvelda notendum að komast að því hvort ofnæmisvaldurinn þeirra sé í tiltekinni matvöru. „Þetta er hugsað þannig að þú hleður appinu niður og býrð til prófíl fyrir þig og setur inn hverju þú hefur ofnæmi fyrir. Síðan notarðu myndavélina á símanum þínum til að skanna inn strikamerki á vörum. Það myndi taka upp úr gagnagrunni sem við værum með sem skilaði til baka upplýsingum um það hvort varan innihaldi ofnæmisvaldinn eða ekki,“ útskýrir Brynhildur Ýr Ottósdóttir, nemandi á öðru ári í heilbrigðis- og hátækniverkfræði.

Eins og staðan er í dag er nákvæmlega þessar upplýsingar ekki að finna í strikamerkjunum en til er danskt fyrirtæki sem framleiðir flest strikamerki fyrir evrópskar vörur sem og íslenskar, að sögn Brynhildar. „Það er með grunn sem tengir saman vörumerki og strikamerki. Síðan eru til aðrir grunnar sem birgjar eru með sem tengja saman vörumerki og innihaldslýsingu. Okkar verkefni væri í rauninni að safna saman þessum gagnagrunnum og tengja þá við innihaldslýsingu,“ segir hún.

Í því felst töluverð vinna en þó ekki það mikil að hópurinn sé ekki fús að leggja hana á sig. „Það getum við gert með samstarfi við fleiri aðila. Við erum búin að tala við Matís og erum búin að fara á fund með þeim og erum á leið á fleiri fundi,“ segir Brynhildur.

Íslenskir grunnar nýttir

Á meðal fyrirtækja sem hópurinn hefur mælt sér mót við eru Myllan og Himneskt. „Við erum að reyna að fá þeirra grunna til að bæta inn í Matís-grunninn. Grunnurinn þeirrra er í raun næringargildagrunnur og það væri hægt að bæta inn í hann innihaldsefnum.“

Það er ágætis byrjun og þau eru komin vel á leið þótt ekki sé langt síðan hópurinn kom fyrst saman. Í síðustu viku opnuðu þau heimasíðu og þar er hægt að fræðast enn frekar um hópinn og appið. Slóðin er allalert.wix.com.

„Framtíðarsýnin er sú að fólk geti farið inn í stórmarkað eins og Bónus og skannað inn hvaða vöru sem er og alltaf fengið upp upplýsingarnar,“ segir Brynhildur. Nú er aðalatriðið að sýna fram á að þetta virki og þá ættu hjólin að fara að snúast.

Lausn fyrir veitingastaði

Einungis ein af þeim sjö sem eru í hópnum er með fæðuóþol en fólk þarf ekki endilega að þekkja þau óþægindi sem það getur haft í för með sér til að skilja hversu hvimleiður vandinn getur verið.

„Ég þekki það sjálf að fara út að borða með vinkonum mínum, það getur verið rosalegt vesen því ein er með mjólkuróþol og önnur með glútenóþol. Hugmyndin er að geta selt veitingastöðum strikamerki sem myndu jafnvel auðvelda þjónum vinnuna ef þeir eru nýbyrjaðir. Þeir gætu þá skannað og sagt fólki hvort maturinn innihaldi ofnæmisvaldinn. Eða þá að strikamerkin væru á matseðlinum,“ segir Brynhildur.

Eftir því sem hópurinn kemst næst er mikil þörf á betri upplýsingum um innihaldsefni matvara. „Við tókum símaviðtöl við þrjátíu eða fjörutíu manns og fundum að fólk er mjög spennt fyrir hugmyndinni. Fólk með börn sem hafa ofnæmi fyrir mörgu er oft lengi í búðunum að lesa innihaldslýsingar. Þetta myndi spara þeim töluverða vinnu,“ segir hún.

Fróðlegt verður að fylgjast með þróun appsins All Alert sem eflaust mun koma mörgum að gagni.

All Alert hópurinn
All Alert hópurinn
All Alert á skjá
All Alert á skjá
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert