Áfengi banvænna en ofbeldi

Á hverju ári deyja 3,3 milljónir jarðarbúa úr ofneyslu áfengis …
Á hverju ári deyja 3,3 milljónir jarðarbúa úr ofneyslu áfengis eða einn á tíu sekúndna fresti, segir í nýrri skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO. AFP

Á hverju ári deyja 3,3 milljónir jarðarbúa úr ofneyslu áfengis eða einn á tíu sekúndna fresti, segir í nýrri skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO. Fleiri deyja af völdum áfengis en ofbeldis í heiminum ár hvert.

Stofnunin varar við því að ofneysla áfengis sé að aukast í heiminum. Eitt af hverjum 20 dauðsföllum í heiminum má rekja til áfengisneyslu, en inni í þeirri tölu eru dauðsföll af völdum ölvunaraksturs, ofbeldis þar sem áfengi kemur við sögu og sjúkdómar og raskanir sem eru fylgifiskar ofneyslu áfengis. 

Shekhar Saxena, sem stýrir deild WHO sem fer með geð- og misnotkunarmál hjá stofnuninni (Mental Health and Substance Abuse), segir að árið 2012 hafi 3,3 milljónir jarðarbúa látist úr misnotkun áfengis, það eru 5,9% allra dauðsfalla í heiminum það ár. Mun hærra hlutfall karla deyr vegna áfengisnotkunar en þetta svarar til 7,6% dauðsfalla karla þetta ár og 4% kvenna.

Rekja má 2,8% dauðsfalla í heiminum til HIV/AIDS, 1,7% til berkla og 0,9% dauðsfalla má rekja til ofbeldis.

Í skýrslunni kemur fram að í löndum eins og Kína og Indlandi þar sem áfengisneysla hefur verið lítil sé hún að aukast umtalsvert. Hins vegar er áfengisneyslan mest í Evrópu og Ameríku en það sé að breytast samfara aukinni velmegun í löndum eins og Kína og Indlandi. Þrátt fyrir það innbyrða engir íbúar heimsins jafn mikið magn og Austur-Evrópubúar og Rússar. Rússneskir karlmenn drekka að meðaltali 32 lítra af hreinum vínanda á ári hverju. 

Hins vegar hefur tæplega helmingur fullorðinna einstaklinga í heiminum aldrei smakkað áfengi og 62% hafa ekki smakkað áfengi í meira en ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert