Undirbúa flug niður til helvítis

Teikning af Venus Express.
Teikning af Venus Express. AP

Könnunarfarið Venus Express hefur nú lokið vísindarannsóknum sínum á braut um reikistjörnuna Venus og undirbúa vísindamenn evrópska geimstofnunarinnar (ESA) nú að svífa því niður í ofsafenginn lofthjúpinn.

Venus Express kom að Venus í apríl árið 2006 og hefur verið á braut um reikistjörnuna síðan. Farið hefur meðal annars rannsakað jónhvolf, andrúmsloft og yfirborð þessarar systurreikistjörnu jarðarinnar.

Jörðin og Venus eru um það bil jafnstórar reikistjörnur og mynduðust á sama tíma, fyrir um 4,6 milljörðum ára. Engu að síður gætu aðstæður á plánetunum tveimur varla verið ólíkari. Gróðurhúsaáhrifin sem tryggðu það að líf gat þrifist á jörðinni fóru algerlega úr böndunum á Venus og líkjast aðstæður þar helst helvíti. Það er ekki síst vegna þess hve ólík örlög þessara annars líku reikistjarna hafa verið sem menn hafa áhuga á að rannsaka Venus.

Blærinn eins og vörubíll í andlitið

Lofthjúpurinn er að langmestu leyti úr koldíoxíði sem þýðir að yfirborðshitinn er í kringum 450-480 gráður, heitara en í nokkrum bakaraofni. Hann er þar að auki svo þykkur að aldrei sést til sólar eða stjarnanna frá yfirborðinu. Þrýstingurinn við yfirborðið er svo mikill að hann jafnast á við 1.000 metra dýpi í úthöfum jarðarinnar.

Til marks um hversu óvinveittar aðstæðurnar eru á Venus þá entust Venera-geimförin sem Sovétmenn sendu til reikistjörnunnar frá 1961 til 1984 aðeins í 23 mínútur til tvær klukkustundir áður en þau voru kramin eins og gosdósir.

Það er heldur engin lognmolla í lofthjúpnum og nær vindhraði í efstu lögum hans um 90 metrum á sekúndu sem er umtalsvert meira en í fellibyljum á jörðinni. Við yfirborðið er þó skjólsamara en þar er vindurinn aðeins nokkrir metrar á sekúndu. Loftið er hins vegar svo þykkt að fyrir ferðalang frá jörðinni væri blíður vorblær eins og að fá vörubíl á blússandi ferð í andlitið, eins og kemur fram á Stjörnufræðivefnum.

Nýtist í leiðöngrum framtíðarinnar

Venus Express-leiðangurinn hefur varpað ljósi á ýmsar ráðgátur varðandi Venus. Rannsóknir með innrauðu ljósi á efnasamsetningu yfirborðsins benda til þess að eitt sinn hafi verið jarðflekakerfi á Venus líkt og á jörðinni og að þar hafi jafnvel verið haf. Farið hefur einnig aflað upplýsinga sem gefa vísbendingar um að plánetan sé hugsanlega ennþá jarðfræðilega virk.

Eftir átta ár á braut um reikistjörnuna eru eldsneytisbirgðir Venus Express nánast á þrotum og því hefur reglubundnum vísindarannsóknum verið lokið. Með síðustu eldsneytisdropunum ætla vísindamennirnir hins vegar að fljúga farinu dýpra niður í lofthjúpinn en áður hefur verið reynt. Fyrri tilraunir af þessu tagi einskorðuðust við efsta lag lofthjúpsins, um 165 kílómetra fyrir ofan yfirborðið. Nú er ætlunin að fara allt niður í 130 kílómetra hæð eða jafnvel neðar. Það gæti gerst á tímabilinu á milli 18. júní og 11. júlí.

Á meðan á fluginu stendur verður mögulega hægt að gera einhverjar mælingar en einnig mun reynslan af því að stýra farinu í gegnum lofthjúpinn nýtast í könnunarleiðöngrum til annarra reikistjarna og fylgitungla þeirra í framtíðinni.

Ef allt gengur að óskum og eldsneytið klárast ekki eða farið verður þrúgandi lofthjúpnum að bráð verður því flogið aftur upp á braut um reikistjörnuna þar sem einhverjum rannsóknum verður haldið áfram þar til eldsneytið þrýtur að lokum.

„Venus Express hefur kafað dýpra í leyndardóma þessarar huldu reikistjörnu en nokkurn hafði dreymt um og farið mun örugglega halda áfram að koma okkur á óvart fram á síðustu stundu,“ segir Håkan Svedhem, yfirvísindamaður verkefnisins hjá ESA.

Frétt ESA af Venus Express.

Grein á Stjörnufræðivefnum um Venus Express-leiðangurinn.

Mynd sovéska Venera 13-lendingarfarsins af yfirborði Venusar.
Mynd sovéska Venera 13-lendingarfarsins af yfirborði Venusar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert