Færð sömu réttindi og Íslendingar

Skjáskot af vefsvæði IceBrowser.
Skjáskot af vefsvæði IceBrowser. Skjáskot

Ný þjónusta, IceBrowser, segist geta tryggt að gögn notenda sem vafra um netið fari ekki til njósnastofnanna. Og hvernig? Jú, með því að beina öllum skipunum til Íslands, dulkóða þær þar og senda áfram. Engin gögn geymast heldur á tölvu viðkomandi heldur á Íslandi, þar sem þau má sækja síðar.

„Með innbyggðri dulkóðun IceBrowser geta notendur verið vissir um að í hvert skipti sem þeir skrá sig inn á vefsvæði séu aðgangsaukenni þeirra send með öryggi, meira að segja á opnum þráðlausum netsvæðum,“ segir á vefsvæði IceBrowser. 

Fyrirtækið er með vefþjóna hér á landi og heldur eignarhaldsfélagið IceBrowser utan um þá. Félagið er skráð sem ráðgjafafyrirtæki á sviði upplýsingatækni. „Ef fólk sækir vefsvæði sem hýst eru í Bandaríkjunum hefur það ekkert öryggi,“ segir Jeff Bermant, sem stofnaði fyrirtækið Cocoon árið 2008, í samtali við Forbes.

Coccon var í fyrstu viðbót við vafra en í félagi við aðra setti Bermant á markað IceBrowser og kom fyrir vefþjónum á Íslandi. Bæði fyrirtæki eru dótturfyrirtæki Virtual World Computing sem skráð er í Bandaríkjunum.

„Það eitt að vafra um netið hefur í för með sér gríðarlega gagnasöfnun og þau gögn safnast oftast saman á tölvu viðkomandi. IceBrowser kemur í veg fyrir að gögnin vistist þannig. Gögnin eru vistuð á öruggum vefþjónum í þeim löndum sem bjóða upp á mesta netvernd. [...] Þegar viðkomandi notar IceBrowser fær hann sömu friðhelgi og íslensk stjórnvöld tryggja þegnum sínum,“ segir á vefsvæði IceBrowser.

Þar er einnig tekið fram að ef notast er við friðhelgisþjónustu bandarískra fyrirtækja þá lúti þau bandarískum lögum. Þar með sé tryggingin fyrir friðhelgi horfin. Með því að skipta við IceBrowser, íslenskt fyrirtæki, séu notendur komnir undir íslensk lög og reglur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert