Gátu sótt nektarmyndir og önnur gögn

Snjallsímar búa yfir ýmsum upplýsingum, m.a. ljósmyndum af fólki við …
Snjallsímar búa yfir ýmsum upplýsingum, m.a. ljósmyndum af fólki við ýmis tækifæri og við ýmsa iðju. AFP

Öryggisfyrirtækið Avast hefur náð að sækja mörg þúsund ljósmyndir, þar á meðal nektarmyndir, úr símum sem fyrri eigendur töldu sig vera búna að að þurrka öll gögn út með því að setja símana á svokallaða verksmiðjustillingu áður en þeir losuðu sig við tækin.

Starfsmenn tékkneska fyrirtækisins Avast notuðu tæknibúnað sem almenningur getur nálgast til að sækja myndirnar úr notuðum símum sem keyptir voru á uppboðsvefnum eBay.

Greint er frá þessu á vef BBC og tekið er fram að í þessu tilfelli sé verið að ræða um síma sem nota Android-stýrikerfi Google.

Fyrirtækið gat einnig nálgast tölvupóst, smáskilaboð og leitir í Google. 

Talsmenn Google hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að Avast hafi notað mjög gamla síma og að rannsókn fyrirtækisins endurspegli ekki þær öryggisvarnir sem sé að finna í nýrri útgáfum Android-símtækja sem eigi við um meirihluta notenda Android-tækja.

Besta ráðið að eyðileggja símana

Sérfræðingar segja að eina leiðin til að eyða öllum gögnum endanlega úr símum sé með því að eyðileggja þá, að því er fram kemur á vef BBC.

Bent er á, að flestir snjallsímar í dag bjóði upp á valmöguleika sem kallast verksmiðjustilling (e. factory reset). Tilgangurinn með henni er að hreinsa út öll gögn og endurstilla símann þannig að öll gögn og stillingar verði þær sömu og þegar símtækið kom út úr verksmiðjunni. 

Avast hefur aftur á móti komist að því að sumir eldri snjallsímar eyði aðeins út atriðaskrá en ekki sjálfum gögnunum. Það þýðir að hægt er að nálgast ljósmyndir, tölvupósta og smáskilaboð nokkuð auðveldlega með því að notast við búnað sem hver sem er getur keypt og halað niður í tölvuna sína.

Avast segist hafa náð að sækja 40.000 ljósmyndir úr 20 símum sem voru keyptir á eBay. Af þeim voru um 750 myndir af léttklæddum eða nöktum konum auk 250 sjálfsmynda af því sem virðist vera getnaðarlimir fyrri eigenda. 

Einnig fundust um 1.500 myndir af börnum, 1.000 leitir á Google, 750 tölvupóstar og smáskilaboð og 250 netföng og tengiliðaupplýsingar. 

„Það er ekki nóg að eyða skrá úr Android-símanum þínum áður en þú selur hann eða gefur hann. Þú verður að skrifa yfir skrárnar og gera þær óafturkræfar,“ segir Avast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert