Breyttur lífsstíll getur hjálpað

Með því að huga vel að heilsunni og lífsstíl er í einhverjum tilvikum hægt að komast hjá því að veikjast af alzheimer-sjúkdómnum. Sjúkdómurinn orsakast af erfðum og umhverfisþáttum.

Alzheimer-sjúkdómurinn er hrörnunarsjúkdómur sem herjar helst á miðaldra fólk eða aldraða. Hann leiðir til minnistruflana og annarra truflana við hugsun og heilastarfsemi.

Talið er að um 5-7% fólks 65 ára og eldra þjáist af sjúkdóminum og með hækkandi aldri eykst hætta á að veikjast af sjúkdómunum. 

Alzheimer-sjúkdómurinn er sjúkdómur í heila sem veldur því að frumur í heila rýrna og eyðileggjast. Sjúkdómurinn þróast hægt og fer stigversnandi. Það dregur úr boðefnaskiptum í heilanum og þar með rofna samskipi á milli frumanna. Enn sem komið er er engin lækning við alzheimer-sjúkdómnum en til eru lyf sem geta hægt á þróuninni og aukið lífsgæði hinna sjúku. 

Fyrstu einkenni sjúkdómsins eru oftast vaxandi minnisskerðing og erfiðleikar með áttun á stund og stað, segir á vef Alzheimersamtakanna.

Fólk fær Alzheimer-sjúkdóm vegna þess að heili þess hrörnar; taugafrumum fækkar og sömuleiðis taugatengingum á milli þeirra. Vísindamenn sem birta grein í Lancet-læknatímaritinu í dag telja að bæði erfðir og umhverfi hafi áhrif á hvort fólk fái sjúkdóminn.

Þar sem fólk lifir mun lengur en áður þýðir það að væntanlega á þeim eftir að fjölga sem fá sjúkdóminn. Er nú talið að 106 milljónir verði með Alzheimer árið 2050 samanborið við 30 milljónir árið 2010.

Rannsóknin, sem stjórnað var af Carol Brayne, prófessor við Cambridge-háskóla, beindist einkum að sjö þáttum sem tengjast sjúkdómnum: sykursýki, háþrýstingi og offitu meðal miðaldra, kyrrsetu, þunglyndi, reykingum og lítilli menntun.  

Með því að breyta og bæta þessa þætti má draga töluvert úr hættunni á að greinast með alzheimer-sjúkdóminn, að því er segir í rannsókninni. Jafnvel væri hægt að fækka þeim sem greinast um 8,5% þannig að níu milljónum færri yrðu með alzheimer árið 2050 en nú er spáð.

Rannsóknir hafa bent til þess að með breyttum lífsstíl og bættri líðan fólks sé hægt að minnka líkurnar á að fá sjúkdóminn. Áður hefur verið talað um allt að helming, en nýja rannsóknin telur að það sé ofrausn þar sem einhverjir af áhættuþáttunum séu samtvinnaðir. Til að mynda séu náin tengsl milli sykursýki, háþrýstings og offitu við kyrrsetu og menntun tengist öllum þáttunum sem skoðaðir voru.

Greinin í heil í Lancet Neurology.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert