Gætum bundið enda á alnæmi

Alnæmi - Dauðsföllum fer fækkandi, meðal annars vegna bætts aðgengis …
Alnæmi - Dauðsföllum fer fækkandi, meðal annars vegna bætts aðgengis að lyfjum. AFP

Möguleiki er á því að koma stjórn á útbreiðslu alnæmis árið 2030, samkvæmt nýrri skýrslu frá Alnæmisstofnun Sameinuðu þjóðanna.

Fjöldi HIV smita og dauðsfalla vegna alnæmis eru samkvæmt henni á undanhaldi, en samt var kallað eftir auknu alþjóðlegu framtaki þar sem „núverandi árangur er ekki nógu hraðvirkur til að binda enda á farsóttina.“

35 milljónir fólks eru smitaðar af HIV veirunni samkvæmt skýrslunni. Þá voru 2,1 milljón ný tilfelli árið 2013, sem er 38% fækkun frá árinu 2001, þegar 3,4 milljónir smituðust af veirunni.

Margt kemur þarna til, þ.á.m. bætt aðgengi að lyfjum. Þá hefur líka sá fjöldi karlmanna sem lætur umskera sig til að minnka smithættu meira að segja tvöfaldast.

Enda þótt margt sé á uppleið í þessum efnum eru blikur varla bjartar enn. Segir m.a. í skýrslunni að færri en fjórir af tíu sem eru smitaðir af HIV í heiminum séu að undirgangast lífnauðsynlega lyfjameðferð og að þrír fjórðu nýrra smita eigi sér stað í aðeins 15 löndum.

Frá þessu greinir BBC, fréttastofa breska ríkisútvarpsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert