Bjó til nýja útgáfu af skák

Úrúgvæski prófessorinn Gabriel Baldi Lemonnier er að rugga bátnum þegar kemur að skákíþróttinni. Hann hefur þróað nýja útgáfu þar sem allt að fjórir spilarar geta teflt í einu. Lemonnier hefur tryggt sér einkaleyfi á útgáfu sinni um víða veröld og nýtur hún vaxandi vinsælda.

Tvö ár eru síðan Lemonnier setti útgáfu sína, Four Fronts, á markað í Úrúgvæ en nú er spilinu einnig dreift í Bandaríkjunum, Púerto Ríkó og á Spáni. Lemonnier, sem er sprenglærður í skákfræðum, bjó í meira en tvo áratugi í Bandaríkjunum þar sem hann kenndi skák. „Þá flaug mér allt í einu í hug að athuga hvort ekki væri hægt að fjölga spilurum,“ segir Lemonnier sem einhenti sér í að skoða alls kyns breytur í skákinni.

Varð úr að hann bætti við einum taflmanni, prinsinum, sem bætist við hina sem fyrir eru; kónginn, hrókinn, drottninguna, peðið, riddarann og biskupinn. Lemonnier segir að prinsinn sameini krafta biskupsins og hróksins.

Þá eru taflmennirnir ekki aðeins svartir og hvítir eins og tíðkast heldur einnig gulir og rauðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert