Sækja um einkaleyfi fyrir iTime

Mikil eftirvænting er eftir snjallúri frá Apple.
Mikil eftirvænting er eftir snjallúri frá Apple. AFP

Talið er að Apple vinni nú að framleiðslu snjallúrs sem mun verða kallað iTime.

Bandarískt einkaleyfi sem gert var opinbert í dag hefur ausið vatni á myllu sögusagna um að Apple vinni nú að þróun snjallúrs. AFP greinir frá þessu.

„Uppfinningin lýtur að rafrænu armbandsúri,“ segir í samantektarskjali Apple fyrir einkaleyfastofu Bandaríkjanna. Í skýringarmynd með leyfisumsókninni kemur einnig fram að úrið muni heita iTime.

Í einkaleyfinu er lýst úri með snertiskjá sem hægt er að tengja þráðlaust við snjallsíma. Önnur stórfyrirtæki á raftækjamarkaði, til dæmis Sony og Samsung, hafa þegar gefið út snjallúr og svo virðist sem Apple vilji einnig eignast hlutdeild á þeim markaði.

Enn hefur fyrirtækið ekkert gefið út frá sér í tengslum við útgáfu snjallúrsins en framkvæmdastjóri Apple, Tim Cook, hefur þó ítrekað sagt að nýjar og áhrifamiklar vörur séu í framleiðslu hjá fyrirtækinu.

Þá hefur hann einnig sagt að honum finnist úlnliðurinn vera tilvalinn staður fyrir þá klæðanlegu tækni sem búist er við að ryðji sér til rúms á næstu árum.

Sérfræðingar á þessu sviði bíða nú spenntir eftir frekari fregnum af því sem talið er að verði „næsti stóra nýjung“ tækniheimsins, en Apple hefur áður rutt brautina með símanum iPhone og spjaldtölvunni iPad.

Tim Cook kynnir iPad mini árið 2012.
Tim Cook kynnir iPad mini árið 2012. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert