Samkynhneigðir fái að gefa blóð

Mynd/AFP

Hópur lækna og lögfræðinga ritaði grein í vikunni í vísindatímaritið Journal of the American Medical Association þar sem þeir færa rök fyrir því að leyfa skuli samkynhneigðum karlmönnum að gefa blóð. 

Allt frá árinu 1983 hefur sam- og tvíkynhneigðum karlmönnum sem hafa stundað kynlíf með öðrum karlmönnum, verið bannað að gefa blóð í Bandaríkjunum. „FDA (Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið) setti þetta bann á hápunkti AIDS-útbreiðslunnar. Hins vegar hafa tímarnir breytt og framfarir í læknavísindum hafa séð til þess að þetta bann er úrelt,“ segir einn höfundur greinarinnar Glenn Cohen. Cohen stundar rannsóknir í læknisfræði við Harvard-háskóla. 

Stenst ekki nútíma læknavísindi

„Við teljum að það sé kominn tími á að FDA endurskoði þessa reglu því hún er ekki í takt við það sem er að gerast í leiðandi löndum í læknavísindum, nútíma læknavísindi né skoðanir almennings. Við teljum einnig að lagalega megi finna margt að þessari reglu,“ segir Jeremy Feigenbaum hjá lagadeild Harvard-háskólans og útskýrir:

„Þeir sem hafa stundað kynlíf við manneskju með HIV mega ekki gefa blóð, en það bann stendur bara í eitt ár. Með því að banna samkynhneigðum mönnum að gefa blóð alla ævi, erum við að gefa þessum hópum ljótan stimpil. 

Í Kanada er samkynhneigðum mönnum bannað að gefa blóð allt að fimm árum eftir að þeir stunda kynlíf við einstakling af sama kyni. Í Bretlandi er bannið eitt ár. Steven Kleinman, ráðgjafi hópsins segir að í hvorugu þessara landa hafi smithættan aukist eftir að bannið var stytt. 

FDA endurskoðaði reglur sínar varðandi blóðgjafa síðast árið 2010 og ákvað að hrófla ekki við þeim. Þeir tóku þó fram að með því að hafa reglurnar svo strangar, séu þeir mögulega að útiloka fólk með litla smithættu frá því að gefa blóð. 

Rauði Krossinn í Bandaríkjunum hefur í nokkur ár barist fyrir því að bannið verði stytt niður í eitt ár. 

Reglur Blóðbankans á Íslandi eru á þann veg að samkynhneigðir karlmenn fá ekki að gefa blóð. Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir Blóðbankans sagði árið 2012 að blákalt áhættumat ráði þar för

Sjá frétt CBS-news

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert