Bretland leyfir sjálfkeyrandi bíla

Umferð - Bílstjóralausir bílar verða leyfðir í Bretlandi næstkomandi janúar. …
Umferð - Bílstjóralausir bílar verða leyfðir í Bretlandi næstkomandi janúar. Sjálfkeyrandi bíll Google hefur þegar ekið meira en 480 þúsund kílómetra vegalengd í Kaliforníu. AFP

Stjórnvöld í Bretlandi hafa tilkynnt að sjálfvirkir bílar verða leyfðir á opinberum vegum í janúar næstkomandi. Borgum landsins býðst að keppa um að halda utan um eina af þremur prufukeyrslum tækninnar, sem eiga að hefjast um svipað leyti. 

Vince Cable, viðskiptaráðherra Bretlands, greindi frá þessu. „Yfirlýsingin í dag mun hleypa bílstjóralausum bílum á götur okkar innan sex mánaða. Það mun koma okkur fyrir á fremstu víglínu þessarar byltingarkenndu tækni,“ sagði hann.

Breskir verkfræðingar, þ.á.m. við Oxford háskólann, hafa gert tilraunir með sjálfvirka bíla undanfarið, en lög og varnaglar í tengslum við tryggingar hafa einskorðað þá við einkavegi, sem mun sennilega breytast í janúar. Önnur lönd hafa þegar leyft sjálfkeyrandi bíla á vegum sínum, en þar má nefna fylkin Nevada, Kaliforníu og Flórida í Bandaríkjunum. Þá stendur einnig til að prufa tæknina í Gautaborg, Svíþjóð. 

Mörg stórfyrirtæki hafa verið að þróa bíla sem keyra sig sjálfa undanfarið. Tæknirisinn Google er til að mynda langt kominn með þróun vörunnar og hefur verið fenginn til að setja hana í bíla fyrir önnur fyrirtæki. Bílaframleiðendur á borð við BMW, Mercedes-Benz, Nissan og General Motors vinna einnig að sinni eigin útgáfu af tækninni. Í Kaliforníu hefur bílstjóralausi bíll Google þegar keyrt meira en 480 þúsund kílómetra vegalengd.

Frá þessu greinir BBC, fréttastofa breska ríkisútvarpsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert