„Stærsti gagnastuldur sögunnar

AFP

Rússneskur glæpahringur er sagður hafa stundað umfangsmesta gagnastuld sem sögur fara af, þar sem þeir komust yfir 1,2 milljarða af notendanöfnum og lykilorðum og 500 milljónir tölvunetfanga. 

Það var öryggisfyrirtækið Hold Securities sem upplýsti um stuldinn en vefmiðillinn New York Times greinir frá þessu í dag. Gögnin sem glæpahringurinn komst yfir stafar frá meira en 420 þúsund vefsíðum af öllum stærðum og gerðum. 

„Tölvuþrjótarnir reyndu ekki bara að komast inn í bandarískar vefsíður, heldur réðust þeir á allar vefsíður sem þeir komust yfir. Allt frá vefsíðum fyrirtækja á Forbes 500 listanum, niður í mjög litlar einkavefsíður,“ segir Alex Holden, stofnandi Hold Securities. Fyrirtækið hefur í gegnum árin oft komið upp um stóra tölvuglæpi en það sérhæfir sig í vörnum gegn tölvuglæpum.

Hann segir að glæpahringurinn hafi enn ekki selt mikið af upplýsingunum til annarra aðila, heldur hafi þeir notað þær aðallega til þess að senda fjöldapóst á samfélagsmiðlum, til dæmis Twitter.  

Glæpahringurinn sem stendur á bakvið gagnastuldinn er staðsettur í litlum bæ í Suður-Rússlandi, nálægt landamærum Kasakstan og Mongólíu. Eru þeir taldir telja á þriðja tug, allir á þrítugsaldri. „Þeir eru með skýra verkaskiptingu, einhverjir sjá um að forrita á meðan hinir sjá um stuldinn. Það má segja að þetta líkist litlu fyrirtæki,“ segir Holden. 

Þeir eiga að hafa byrjað á tölvuglæpum árið 2011. Fyrst keyptu þeir gögn af öðrum tölvuþrjótum en nú upp á síðkastið hafa þeir sjálfir séð um stuldinn. 

Sjá frétt New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert