Google færir heiminum náttúru Íslands

Netrisinn Google hefur verið iðinn við kolann á Íslandi. Ekki aðeins er gatnakerfið skráð myndrænt í Street View gagnagrunn þeirra, heldur vinna þeir að því að mynda íslenska náttúru við þjóðveginn.

Gullni hringurinn víðfrægi, um Þingvelli, Gullfoss og Geysi, varð fyrstur til að rata inn á Street View en Google lét ekki þar við sitja. Á bloggi Google Maps er vitnað í bókina Tales of Iceland þar sem höfundurinn Stephen Markley skrifar:

„Vandinn við að keyra kringum Ísland er sá að á fimm mínútna fresti blasa við þér hrífandi náttúruundur sem gera þig orðlausan og fylla þig auknum lífsþrótti. Maður verður gjörsamlega uppgefinn.“

Talsmenn Google segjast hafa ákveðið að sannreyna þessi ummæli með því að taka nokkra af fallegustu stöðum Íslands inn í Street View-verkefnið. „Það kom í ljós að Markley hafði rétt fyrir sér,“ segir á bloggi Google Maps og svo er netverjum boðið að „ferðast“ rafrænt um landið með hjálp netsins.

Til viðbótar við Gullna hringinn er nú  búið að mynda Vatnajökulsþjóðgarð, bæði við Skaftafell og Dettifoss.

Yfirlit yfir íslensk náttúruundur á Google Street View má sjá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert