Galli í iPhone rafhlöðum

AFP

Tæknirisinn Apple hefur viðurkennt að galli geti leynst í „örfáum“ iPhone 5 snjallsímum fyrirtækisins. Gallinn lýsir sér þannig að rafhlaðan tæmist hraðar en ella og þarf því að hlaða símann oftar.

Apple hefur brugðist við vandanum með því að bjóða eigendum gallaðra síma ókeypis rafhlöðuskiptingu, en eigendur gallaðra tækja í Bandaríkjunum og Kína geta nú nýtt sér þjónustuna. Áætlað er að sama þjónusta verði í boði í Evrópu í lok ágúst.

Samkvæmt frétt The Telegraph hefur Apple lent í vandræðum af svipuðu tagi áður, en í október 2013 var tilkynnt um galla í iPhone 5S þar sem hleðsla tók óvenju langan tíma. Þar var einnig ítrekað að um „örfá“ tæki væri að ræða.

Þeir sem telja sinn síma vera gallaðan geta slegið raðnúmer hans inn á innköllunarsíðu Apple vefsíðunnar og séð hvort hann sé þar á lista.

Á myllumerkinu #iPhoneproblems á Twitter má sjá eigendur snjallsímanna deila þeim vandræðum sem þeir standa frammi fyrir, en þar kvarta fjölmargir yfir lélegri rafhlöðuendingu eins og sjá má í meðfylgjandi færslum.

Frétt The Telegraph

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert