Kvartanir vegna kaupa í tölvuleikjum

Google hefur gert breytingar.
Google hefur gert breytingar. AFP

Mikill fjöldi kvartana hafa borist frá ýmsum löndun Evrópu vegna rafrænna kaupa innan tölvuforrita eða tölvuleikja, þá helst í snjallsímum og spjaldtölvum. Neytendastofa tekur virkan þátt í nefnd innan Evrópska efnahagssvæðisins um neytendavernd og er eitt af viðfangsefnum nefndarinnar umrædd kaup.

Margir slíkir leikir eru auglýstir með orðunum „frítt“ eða „ókeypis“ en þegar komið er á visst stig leikjanna þarf að greiða fyrir vissa hluti, næsta borð, áframhaldandi notkun o.s.frv. „Mikill fjöldi kvartana hafa borist frá ýmsum löndun Evrópu vegna „in-app“ kaupa á beintengdum leikjum, þá sérstaklega vegna gálausra kaupa barna, [og þess vegna] sameinuðu innlend yfirvöld krafta sína með framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til þess að finna lausnir á vandamálunum. Hin samhæfða aðgerð innan Evrópusambandsins hefur borið verulegan árangur. Fyrirtæki í greininni hafa tekið á sig fjölda skuldbindinga til að efla vernd neytenda. Aðgerðin mun auka tiltrú neytenda á hinum ört vaxandi „app“ geira,“ segir á vefsvæði Neytendastofu.

Google hefur þegar ákveðið að gera nokkrar breytingar. Innleiðing er þegar hafin og ætti að ljúka fyrir lok september. Meðal annars verður ekki notast við orðið „free“ þegar leikir innihalda möguleika á slíkum kaupum. Þá verða gefnar út hnitmiðaðar leiðbeiningar fyrir app-framleiðendur. Sjálfvöldum stillingum notenda hefur einnig verið breytt þannig að skýrs samþykkis er leitað vegna sérhverrar greiðslu nema að neytandi kjósi sjálfviljugur að breyta þessum stillingum.

„Apple hefur því miður ekki gert neinar breytingar enn sem komið er en fyrirtækið hefur lofað að athuga vandamál ítarlega, sérstaklega hvað varðar samþykki vegna greiðslna. Tímamörk hafa hins vegar ekki verið sett fram og mun nefnd um neytendavernd halda samskiptum við Apple áfram til þess að tryggja að Apple breyti atriðum sem nefndin leggur til.

Aðildaríki EES mun halda áfram að fylgjast með viðfangsefninu og þá sérstaklega að hvaða leyti skuldbindingar aðila hafa tekið á atriðunum sem koma fram í sameiginlegri afstöðu nefndarinnar um neytendavernd,“ segir ennfremur á vef Neytendastofu.

Apple.
Apple. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert