Allir megrunarkúrar keimlíkir

Hollur og góður matur er gulls ígildi
Hollur og góður matur er gulls ígildi mbl.is/Styrmir Kári

Allir megrunarkúrar, allt frá Atkins til Weight Watchers, skila svipuðum árangri og það sem fólk á að gera sem vill fara í megrun er einfaldlega að velja þann sem hentar þeim best.

Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem birt er í tímaritinu Journal of the American Medical Association. Rannsóknin byggir á niðurstöðu fólks af 48 mismunandi kúrum. Það var því niðurstaða kanadíska rannsóknarteymisins að það sem skipti mestu væri að halda sig við matarræðið fremur en að megrunarkúrinn sjálfur sem slíkur.

Færri kaloríur er það sem skiptir máli

Á vef BBC kemur fram að sérfræðingar í offitu segi að þetta eigi sér eðlilegar skýringar því flestir megrunarkúrar miði að því að fækka þeim kaloríum sem innbyrtar eru. 

Líkt og ítrekað hefur komið fram þá hafa megrunarkúrar komið og farið enda tískubylgjur í þessum geira líkt og á fleiri sviðum. Má þar nefna lágkolvetnafæði og fæði sem byggir á því að borða litla sem enga fitu.

Vísindamenn við McMaster háskólann í Ontario og Hospital for Sick Children Research Institute í Toronto fóru yfir gögn frá 7.286 einstaklingum sem voru í yfirvigt og höfðu farið í kúra eins og: Atkins, South Beach, Zone, Biggest Loser, Jenny Craig, Nutrisystem, Volumetrics, Weight Watchers, Ornish og Rosemary Conley.

Í ljós kom að á tólf mánuðum missti fólk, hvort sem það var á lágkolvetna eða lítilli fitu kúrum, að meðaltali 7,3 kg. Þeir sem voru á lágkolvetnafæði léttust hins vegar hraðar í byrjun.

Aftur á móti er ekkert fjallað um önnur heilsutengd mál svo sem kólesteról ofl. 

Susan Jebb, prófessor í Oxford, segir að megrunarkúrar séu oft miklu líkari heldur en fólk geri sér grein fyrir. Það sem þeir eigi meðal annars sameiginlegt er að fólk innbyrði ekki meira en 1.500 kaloríur á dag, haldi sig við að borða á matmálstímum og forðist óhollustu eins og kex, kökur og sælgæti.

Það sem skipti mestu sé hversu lengi þú heldur út að innbyrða svo fáar hitaeiningar á dag án þess að gefast upp. Því skipti mestu að finna mataræði sem hentar þér best ekki endilega hvaða kúr það er.

Hér er hægt að lesa fréttina á BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert