Töldu að Watts væri vændiskona

Lögreglan í Los Angeles
Lögreglan í Los Angeles AFP

Bandaríska leikkonan Daniele Watts, sem lék meðal annars í Óskarsverðlaunamyndinni Django Unchained, sakar lögregluna í Los Angeles um kynþáttaníð en hún segist hafa verið handjárnuð og sett í varðhald þar sem þeir töldu að hún væri vændiskona. Watts og unnusti hennar voru að kyssast í bíl hans þegar lögregla réðst til atlögu gegn henni.

Daniele Watts, sem lék þrælinn CoCo í kvikmynd Quentins Tarantinos, segist hafa verið niðurlægð en atvikið átti sér stað í hverfinu Studio City á fimmtudag. 

Samkvæmt Guardian neitaði lögreglan í Los Angeles í fyrstu að atvikið væri á skrá þar sem hún hefði ekki verið handtekin. Í gær sagði talskona lögreglunnar í viðtali við Guardian að verið væri að fara yfir gögn málsins og frekari upplýsinga væri að vænta í dag.

Watts setti myndir inn á Facebook sem sýna að hún er með áverka á úlnlið sem hún segir vera eftir handjárn og aðra af sér grátandi með hendur fyrir aftan bak og lögregluþjón hjá henni.

Að sögn Watts fór það í taugarnar á einhverjum sem átti leið hjá að hún og unnusti hennar, matreiðslumeistarinn Brian Lucas, væru að kyssast í bílnum. Eitt leiddi af öðru og að hennar sögn endaði það með því að hún var handjárnuð og sett í varðhald.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert